Almannatryggingar

Þriðjudaginn 04. apríl 2000, kl. 15:28:03 (5876)

2000-04-04 15:28:03# 125. lþ. 89.12 fundur 503. mál: #A almannatryggingar# (dvalarkostnaður foreldris) frv. 61/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 125. lþ.

[15:28]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil lýsa mikilli ánægju með þetta frv. sem ég tel vera framfaraskref, en með því er lagt til að heimilt verði samkvæmt reglum sem tryggingaráð setur og ráðherra staðfestir að greiða óhjákvæmilegan dvalarkostnað annars foreldris við sjúkrahúsinnlögn barns yngri en 18 ára fjarri heimili. Þetta er í samræmi við viðbrögð við kröfum sem hafa verið háværar í þjóðfélaginu að undanförnu innan þings sem utan. Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir vitnaði til þáltill. sem hér var borin fram í haust af hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, Margréti Frímannsdóttur og Össuri Skarphéðinssyni og þeim sem hér stendur. Þar er lagt til að tekið verði á þessum málum og foreldrum langveikra barna tryggður aukinn réttur.

Í kröfugerðum samtaka launafólks hefur þessu einnig verið haldið á loft og vísa ég þar t.d. til sameiginlegra áhersluatriða BSRB, BHM og Kennarasambands Íslands frá því á í haust.

Þótt þetta sé mikilvægt skref sem hér er verið að stíga þá þarf að stíga miklu stærri skref í þessum málaflokki og nægir þar að minna á að aðstandendur langveikra barna hafa miklu lakari rétt hér á landi en gerist alls staðar í löndunum í kringum okkur. Vísa ég þá fyrst og fremst til Norðurlandanna sem okkur er gjarnt að bera okkur saman við.

[15:30]

Á Íslandi eru greiddir sjö veikindadagar fyrir börn undir 13 ára aldri án tillits til fjölda barna eða hjúskaparstöðu foreldra. Í Svíþjóð eru greidd 90% launa í 120 daga á ári fyrir hvert barn fram að 16 ára aldri. Í Finnlandi eru greidd 66% af launum í 60--90 daga á ári og lengur vegna langsjúkra barna. Heimilt er að greiða báðum foreldrum laun ef nauðsyn krefur. Í Noregi eru greiddir allt að 780 veikindadagar, þar af 100% laun í 260 daga og síðan 65% laun í 520 daga fyrir hvert barn fram að 16 ára aldri auk orlofs af greiddum sjúkrabótum í allt að tólf vikur á ári. Í Danmörku er greidd launauppbót 90% launa til annars foreldris meðan á meðferð stendur. Launauppbót má síðan greiða í þrjá mánuði til aðlögunar fyrir barnið og foreldra eftir að meðferð lýkur. Þær tölur sem hér er vitnað í eru fengnar úr yfirliti frá Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna og er birt í fyrrnefndri þáltill. sem ég vitnaði til.

Þarna er náttúrlega ekki saman að jafna, annars vegar réttindum aðstandenda langveikra barna á Norðurlöndum þar sem greitt er upp í ár og reyndar lengur, við það sem gerist á Íslandi þar sem sjö veikindadagar eru greiddir.

En ég kom ekki hingað upp til að gera lítið úr því frv. sem hér liggur fyrir þinginu. Ég tel það vera framfaraspor og styð það heils hugar.