Hvíldarheimili fyrir geðsjúk börn

Þriðjudaginn 04. apríl 2000, kl. 16:15:35 (5892)

2000-04-04 16:15:35# 125. lþ. 89.13 fundur 263. mál: #A hvíldarheimili fyrir geðsjúk börn# þál., ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 125. lþ.

[16:15]

Ásta Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Í nýju frv. sem er nú fyrir þinginu um félagsþjónustu sveitarfélaga eru sameinaðir tveir lagabálkar, annars vegar um þjónustu sveitarfélaga og hins vegar um málefni fatlaðra. Öllum ætti að vera ljóst að réttur fatlaðra og langveikra barna ætti að vera hinn sami. Í þessu frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga er tekinn af allur vafi um hver réttur langveikra barna er og hann er jafnaður út. Þannig að réttur langveikra barna til skammtímavistunar, til stuðningsfjölskyldu og þjónustu í skólaleyfum er hinn sami milli fatlaðra og langveikra barna. Þannig er tekið á þessu máli. Ég sagði áðan að þessi þörf hefði verið réttilega greind og á þessum málum er tekið.

Þegar ég skoðaði þessa þáltill. þá fór ég yfir skýrslur ýmissa nefnda sem fjallað hafa um stöðu langveikra barna. Í engri þessara skýrsla er greind þörf fyrir sérstakt hvíldarheimili en hins vegar kemur fram að þörf sé fyrir skammtímavistun. Ég tek undir að það þarf að koma til móts við það. Það þarf að koma þessum krökkum í skammtímavistun og það á að leysa á þeim deildum sem nú þegar eru til staðar. Fjármagn til slíkrar þjónustu hefur aukist gríðarlega á undanförnum mánuðum. Stundum helst það ekki alveg í hendur, að geta ráðið starfsfólk og hið aukna fjármagn. Við verðum að sýna ákveðna þolinmæði meðan verið er að brúa þetta bil. Það er því enginn vafi á að hér er tekið á þessum málum af myndugleik.