Smásala á tóbaki

Þriðjudaginn 04. apríl 2000, kl. 17:31:20 (5909)

2000-04-04 17:31:20# 125. lþ. 89.16 fundur 368. mál: #A smásala á tóbaki# þál., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 125. lþ.

[17:31]

Ásta Möller:

Herra forseti. Hér er til umfjöllunar þáltill. um að smásala á tóbaki verði háð leyfisveitingu. Flutningsmenn tillögunnar eru hv. þm. Þuríður Backman, Bryndís Hlöðversdóttir, Einar K. Guðfinnsson, Jón Kristjánsson og Margrét K. Sverrisdóttir. Ég vil byrja á að þakka flm. fyrir þessa þáltill. og lýsi stuðningi við hana. Ég tel að hún sé verulega til bóta og mun styðja hana.

Við vitum að skaðsemi tóbaks er óumdeild. Reykingar hafa verið taldar eitt helsta heilbrigðisvandamál nútímans. Þess er skemmst að minnast að í nýlegu riti Hjartaverndar um reykingar sem dreift var í öll hús á landinu eru birtar ógnvænlegar staðreyndir um áhrif reykinga á heilsu manna og byggja þær á íslenskum rannsóknum. Þar kemur m.a. fram að hættan á að deyja úr kransæðastíflu meira en sjöfaldast hjá konu sem reykir meira en einn pakka á dag. Einnig kemur fram að daglega deyr einn Íslendingur vegna reykinga og fimmta hvert dauðsfall á Íslandi er af völdum reykinga. Það kemur líka fram að fertugur karl sem reykir einn pakka af sígarettum á dag styttir ævi sína um 7,8 ár og fertug kona um 8,5 ár. Og ekki þarf að hafa mörg orð um þann kostnað sem heilbrigðiskerfið hefur af völdum reykinga.

Jafnframt vil ég benda á að nýr forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, Gro Harlem Brundtland, hefur skorið upp herör gegn reykingum og gert baráttu gegn reykingum eitt af megináherslumálum í tíð sinni sem yfirmaður stofnunarinnar. Hún hefur lýst því yfir að tóbaksreykingar og malaría séu stærstu heilbrigðisvandamál nútímans.

Í lögum um tóbaksvarnir, sem mér er kunnugt um að eru nú til endurskoðunar í heilbrrn., er kveðið á um að bannað sé að selja börnum undir 18 ára aldri tóbak. Hins vegar hafa kannanir sýnt að þetta bann við sölu tóbaks til barna yngri en 18 ára er ekki virt og þau geta keypt tóbak í nær hvaða verslun sem er. Í Morgunblaðinu um helgina var sagt frá nýlegri athugun Æskulýðs- og tómstundaráðs Hafnarfjarðar þar sem fram kom að 57% verslana í Hafnarfirði virða lög um tóbaksvarnir og selja ekki tóbak til ólögráða unglinga. Fyrir fjórum árum var þetta hlutfall milli 5 og 7% af verslunum í Hafnarfirði sem seldu ekki tóbak til ungmenna.

Við höfum frétt af því í gegnum tíðina að Æskulýðs- og tómstundaráð Hafnarfjarðar hefur verið mjög virkt í aðhaldi og það sést á þessum tölum hvað aðhald hefur mikið að segja, þ.e. frá því að vera milli 93--95% af verslunum sem seldu tóbak til unglinga, þá er það komið niður í 43%. Það er því alveg ljóst að aðhald skilar árangri, en það aðhald verður að vera stöðugt. Það er ekki nóg að gert sé átak í eitt skipti og síðan látið þar við sitja heldur verður átakið að vera stöðugt.

Það kom líka fram í blöðum um helgina að reykingar í grunnskólum hafa aukist. Árið 1994 reyktu 10,4% grunnskólanema en það hefur aukist upp í 11,4% árið 1998. Og enn ógnvænlegri tölur er að sjá hjá 16 ára unglingum. Þar kemur í ljós að á árinu 1992 reyktu um 16% unglinga en sú tala á árinu 1997 er komin upp í 21,4%, 23% af stúlkum, næstum því fjórða hver 16 ára stúlka reykti árið 1997 og fimmti hver strákur. Það er því mikil ástæða til að taka harkalega á þessu máli.

Við vitum og það kemur fram í grg. með þáltill. að yfir 80% reykingamanna byrja að reykja fyrir 18 ára aldur. Það er því mikið í húfi.

Stjórnvöld hafa ýmis ráð til að stemma stigu við reykingum og verðstýring er eitt af því. Aðgengi, m.a. aðgengi ungs fólks að tóbaki, er annað ráð. Upplýsingar og varnarmiðar á sígarettupökkum eða tóbaksvörum hafa sitt að segja, bann við tóbaksauglýsingum og fræðsla um skaðsemi tóbaks. Hægt er að taka ákvarðanir til að verja fólk við óbeinum reykingum, t.d. með reyklausum svæðum á veitingastöðum, reykingabanni í flugvélum og á opinberum stofnunum og við höfum gengið býsna langt í þá veru. Hægt er að hafa eftirlit með tóbaksvörum og bjóða upp á námskeið og stuðning til að hætta reykingum og hægt er að gera virkar og stöðugar rannsóknir um tóbaksvarnir og árangur aðgerða og stuðla að fjölmiðlaumfjöllun um skaðsemi tóbaks. Með þeirri þáltill. sem liggur hér fyrir er eitt af þessum ráðum tekið fram og gert er ráð fyrir að sala á tóbaki verði eingöngu háð leyfum.

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan styð ég þessa þáltill. Með henni er gerð tillaga um að herða á reglum við að framfylgja banni við sölu á tóbaki til unglinga undir 18 ára aldri. Það er til mikils að vinna því bætt heilsa, betra líf og minni heilbrigðiskostnaður er í húfi.