Fjármálaeftirlit

Miðvikudaginn 05. apríl 2000, kl. 13:34:09 (5914)

2000-04-05 13:34:09# 125. lþ. 90.2 fundur 199. mál: #A fjármálaeftirlit# (breyting ýmissa laga) frv. 11/2000, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 125. lþ.

[13:34]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég tel þetta frv. vera mikið framfaraspor og gleðilegt að þverpólitísk samstaða skuli hafa myndast um að efla Fjármálaeftirlitið. Ég skrifaði hins vegar undir nál. með fyrirvara og eftir 2. umr. í atkvæðagreiðslu greiddum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs atkvæði gegn tveimur ákvæðum frv., annars vegar ákvæði sem kveður á um dagsektir og févíti sem Fjármálaeftirlitinu er heimilt að leggja á fyrirtæki sem það tekur til rannsóknar. Við teljum að það sé dómstólanna að kveða upp úrskurð af þessu tagi en ekki framkvæmdarvaldsins.

Í annan stað greiddum við atkvæði gegn því að skerða upplýsingaskyldu Fjármálaeftirlitsins gagnvart fjölmiðlum. Þetta náði hins vegar fram að ganga gegn atkvæðum okkar. Þegar á heildina er litið ítreka ég að okkur þykir þetta marka framfaraspor og við styðjum frv.