Fullorðinsfræðsla fatlaðra

Miðvikudaginn 05. apríl 2000, kl. 15:30:26 (5962)

2000-04-05 15:30:26# 125. lþ. 91.8 fundur 492. mál: #A fullorðinsfræðsla fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 125. lþ.

[15:30]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég var á sunnudaginn viðstaddur upphaf kynningardaga fullorðinsfræðslu fatlaðra í Ráðhúsinu í Reykjavík og þar var fjöldi nemenda og aðstandenda þeirra og einnig forustumenn í fullorðnisfræðslunni. Það er engan bilbug að finna hjá því fólki sem að þessu starfar að halda starfi fullorðinsfræðslunnar áfram og við hv. þm. hljótum að leggja okkur fram um að gera það sem í okkar valdi stendur til að þessi starfemi þróist.

Einnig er sú breyting orðin á málefnum fatlaðra þegar litið er til menntunar að framhaldsskólarnir hafa opnað dyr sínar fyrir fötluðu fólki í mun ríkari mæli en áður var á grundvelli nýrra framhaldsskólalaga. Nokkur fjárveiting er til þess á þessu ári að geta boðið fötluðum þriðja árið á framhaldsskólastigi. Hins vegar verða skilin á milli skólastarfs og þess sem felst í starfsþjálfun ógreinilegri eftir því sem þetta fólk eldist. Þarna þarf því að vera gott samstarf milli skóla og atvinnulífs og milli skóla og fullorðinsfræðslu fatlaðra. Við þurfum því að vinna að þessu öllu samtímis til að tryggja sem best stöðu fatlaðra og menntun þeirra.