Norræna ráðherranefndin 1999

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 10:32:46 (5983)

2000-04-06 10:32:46# 125. lþ. 94.1 fundur 470. mál: #A Norræna ráðherranefndin 1999# skýrsl, 422. mál: #A norrænt samstarf 1999# skýrsl, umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[10:32]

Ráðherra norrænna samstarfsmála (Siv Friðleifsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir skýrslu samstarfsráðherra Norðurlanda um störf norrænu ráðherranefndarinnar sem liggur frammi. Íslendingar höfðu með höndum formennsku í ráðherranefndinni árið 1999. Í hópi samstarfsráðherranna var hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson í forsvari fyrri hluta ársins þar til ný ríkisstjórn tók við völdum að loknum alþingiskosningum og þannig æxlaðist það að í júní tók sú sem hér stendur við störfum samstarfsráðherra.

Formennskuhlutverki í ráðherranefndinni fylgja talsverðar annir, bæði fyrir ráðherrana, sem gegna formennsku hver í sinni fagráðherranefnd, og fyrir þann fjölda embættismanna í stjórnsýslunni sem að málinu kemur. En jafnframt gefur það færi á að móta og fylgja eftir ákveðnum áherslum sem formennskulandið setur fram. Ég tel að vel hafi tekist til þetta tímabil, bæði með stjórn og eftirfylgni áherslumála og vil þakka þeim sem að málinu hafa komið.

Ég ætla að draga fram í dagsljósið nokkra þætti skýrslunnar án þess að það verði tæmandi talning á atburðum starfsársins. Jafnframt mun ég skýra frá nokkrum ákvörðunum sem voru teknar á þessu ári.

Árið 1999 voru fjárlög norrænu ráðherranefndarinnar 741 millj. danskra króna og skiptust þannig að rúmlega 70% þeirra runnu til hins hefðbundna norræna samstarfs, 20% til samstarfs um málefni grannsvæðanna og 9% til samstarfs um Evrópumál. Sé innihaldið flokkað á annan hátt kemur í ljós að tæplega helmingur fjárveitinganna rann til menningar- og menntamála eða rúmlega 45%, um 25% til umhverfis- og auðlindamála og þau 30% sem eftir voru skiptust milli annarra sviða og reksturs aðalskrifstofunnar. Í starfsemi sem þessari þar sem starfrækt er 31 stofnun, fjölbreytt styrkjakerfi og starfs- og nemendaskipti auk víðtæks verkefnasamstarfs fer ekki hjá því að ákveðin sjálfvirkni komist á fjárveitingar. Hún hefur ásamt öðru leitt til þess að ráðrúm til nýrra pólitískt áhugaverðra verkefna er orðið þröngt. Vandinn er enn brýnni þar sem ekki hefur náðst sátt um hækkun fjárveitinga til samstarfsins og eru norrænu fjárlögin í ár lægri en þau voru fyrir sjö árum.

Af þessum ástæðum ákváðu samstarfsráðherrarnir eftir síðustu áramót að endurskoða uppbyggingu fjárlaganna með það að markmiði að skapa svigrúm til nýsköpunar í störfum ráðherranefndarinnar. Niðurstöður endurskoðunarinnar eiga að liggja fyrir síðar á árinu.

Þau markmið sem stefnt var að á formennskuári okkar Íslendinga voru sett fram í sérstakri formennskuáætlun þar sem gerð var grein fyrir forgangsmálum okkar á öllum sviðum samstarfsins. Vegna sérstakrar áherslu á sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda, náttúruverndar og lífskjara á Vestur-Norðurlöndum og öðrum norðlægum slóðum var jafnframt lögð fram sérstök markmiðslýsing eða áætlun undir yfirskriftinni ,,Fólk og haf í norðri``. Sá árangur sem náðist með þessu móti var þrenns konar. Í fyrsta lagi var hafist handa um ýmis verkefni sem ég mun víkja frekar að á eftir. Í öðru lagi jókst þátttaka og virkni af hálfu Færeyinga og Grænlendinga á mörgum sviðum samstarfsins eins og að var stefnt jafnframt því sem tekið var upp óformlegt tví- og þríhliða samstarf milli Íslands, Færeyja og Grænlands á nokkrum sviðum. Í þriðja lagi er það mikilvægt fyrir árangur til framtíðar að Danir ákváðu í formennskuáætlun sinni að fylgja þessum áherslum okkar eftir. Það skiptir máli því að flest verkefni ráðherranefndarinnar eru til lengri tíma en árs.

Þær áherslur sem við Íslendingar settum fram í Fólki og hafi í norðri endurspeglast í verkefnum ráðherranefndarinnar á fjölmörgum sviðum. Til að gefa mynd af afrakstri ársins nefni ég nokkur þeirra helstu.

Fyrst ber að telja að á árinu 1999 hófst víðtækur undirbúningur að stefnumótun til næstu 20 ára um sjálfbær Norðurlönd. Verkið er unnið í tilefni yfirlýsingar sem forsætisráðherrar Norðurlandanna gáfu þess efnis í árslok 1998. Ætlunin er að stefnumótunin verði lögð fyrir Norðurlandaráð í september á þessu ári þannig að unnt verði að fjalla um hana á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík í nóvember nk. Við undirbúning stefnumótunarinnar var margt af því sem stefnt var að með Fólki og hafi í norðri sett í fyrirrúm. Bæði á sviði umhverfis- og sjávarútvegsmála voru á dagskrá á starfsárinu fjölmörg verkefni þar sem markmið Fólks og hafs í norðri voru í fyrirrúmi.

Ég nefni þar sérstaklega framkvæmdaáætlunina um vernd náttúru- og menningarminja á Norðurskautssvæðunum, Íslandi og Svalbarða, ásamt þverfaglegu umhverfis- og sjávarútvegsáætluninni. Í samræmi við áætlanir þessar er unnið að verkefnum sem snúa að sjálfbærri ferðaþjónustu, Staðardagskrá 21 á Norðurskautssvæðunum, áhrif botnvörpuveiða á lífríki sjávar og sjálfbærni í sjávarútvegi svo að eitthvað sé nefnt.

Innan norrænu rannsóknaráætlunarinnar um norðurskautsmál og norðurskautsáætlunarinnar er unnið að fjölda verkefna þar sem markmið Fólks og hafs í norðri eru höfð að leiðarljósi. Dæmi þessa eru verkefni um líffræðilega fjölbreytni, um umhverfisvá á norðurslóð, um fjarlækningar, tengslanet sérfræðinga á svæðinu, könnun á lífskjörum þjóða á Norðurskautssvæðunum ásamt verkefnum þar sem markmiðið er kynning erlendis á lífskjörum þessara þjóða. Eitt verkefnanna er stuðningur við þátttöku frumbyggja á norðurslóð í heimssýningunni í Hannover í sumar.

Á sviði byggðamála voru einnig á dagskrá verkefni og áætlanir sem snerta hagsmuni fólks á norðvestlægum svæðum sérstaklega. M.a. veitti norræna Atlantshafsnefndin NORA, sem heyrir undir það svið og hefur árlega til ráðstöfunar 50 millj. ísl. króna, styrki til fjölda vestnorrænna samstarfsverkefna. Íslenskir aðilar komu þar að næstum 60 verkefnum.

Á sviði menningarmála var lögð sérstök áhersla á stöðu jaðarsvæða og fámennra samfélaga og voru af því tilefni haldnar tvær ráðstefnur um það efni hér á landi. Á annarri þeirra var sjónum beint að menningu og tómstundum barna og ungmenna á jaðarsvæðum og á hinni var það staða fámennra þjóða og jaðarsvæða í norrænu menningarsamstarfi.

Að lokum vil ég nefna ráðstefnu sem haldin var í Reykjavík í desember sl. um samstarf á Norður-Atlantshafssvæðinu. Hana sóttu fulltrúar frá Færeyjum, Grænlandi og Íslandi ásamt fulltrúum frá Skotlandi og eyjunum þar auk Nýfundnalands. Þar kom fram mikill áhugi á að hefja á norrænum vettvangi verkefnasamstarf um sameiginleg hagsmunamál þessara landa og svæða og beindist áhuginn að umhverfismálum sjávar fyrst og fremst, en einnig að landbúnaðarsamstarfi og ferðamennsku.

Það var fleira en vestnorrænir hagsmunir sem við Íslendingar settum í fyrirrúm á starfsárunum. Eitt af því sem við settum okkur í upphafi árs var að nota formennskutímann til að gera norrænt samstarf um Evrópumál markvissara og tel ég okkur hafa orðið vel ágengt í því.

Upplýsingastreymið milli ráðherranefndar skrifstofunnar í Kaupmannahöfn og norrænu sendiráðanna í Brussel hefur orðið skilvirkara en áður og samráð ráðherra norrænu ríkjanna fyrir ESB-fundi hefur aukist. Eins voru haldnar tvær norrænar ráðstefnur í Brussel í samstarfi sendiráðs Íslands, viðkomandi fagráðuneytis á Íslandi og ráðherranefndarskrifstofunnar. Önnur var í tilefni bókarinnar ,,Kyn og stjórnvöld á Norðurlöndum`` og hin var um umhverfisþátt norðlægu víddarinnar. Báðar tókust vel og þjónuðu þeim tilgangi að koma norrænum sjónarmiðum að á vettvangi ESB.

Á starfsárinu var að tillögu Halldórs Ásgrímssonar, þáv. samstarfsráðherra, ákveðið að skipa nefnd, aldamótanefndina eða ,,Vismandspanelet``, sem falið var að meta hvaða breytinga væri þörf á inntaki norræns samstarfs við upphaf nýrrar aldar til að samstarfið þjóni áfram pólitísku hlutverki sínu. Einn meginþáttur þess sem nefndinni er falið að meta er norrænt samstarf í ljósi alþjóðavæðingarinnar. Nefndin skilar áliti sínu í september og stefnt er að því að það verði lagt fyrir þing Norðurlandaráðs í Reykjavík í nóvember.

Norræna ráðherranefndin tók á starfsárinu þátt í tveimur samstarfsverkefnum sem við Íslendingar settum á oddinn. Annað var ráðstefnan ,,Konur og lýðræði`` sem ríkisstjórn Íslands hélt í samstarfi við ríkisstjórn Bandaríkjanna og norrænu ráðherranefndina. Ráðherranefndin hefur síðan tekið að sér mikilvægt hlutverk við eftirfylgni ráðstefnunnar. Hitt verkefnð var þátttaka í fjármögnun og undirbúning að viðamikilli sýningu um víkingatímann og víkingana sem verður opnuð í Smithsonian-safninu í Washington síðar í þessum mánuði til að minnast landafundanna og vesturfara norrænna manna. Ætlunin er að hún fari síðan til fleiri borga í Bandaríkjunum og Kanada.

Upplýsingatækni, matvælaöryggi og varnir gegn fíkniefnum voru einnig forgangsmál í formennskuáætlun okkar. Því er það fagnaðarefni að á síðasta ári skyldi ákveðið að stofnaðar yrðu ráðherranefndir á sviði upplýsingatækni og fíkniefna ásamt því að í undirbúningi er fundur þeirra ráðherra er fara með matvælamál. En fyrirsvar ráðherra á málaflokkunum er ein forsenda þess að unnt sé að taka á málunum af krafti. Með samstarfi sem stýrt er af embættismönnum má ná vissum árangri en sé ætlunin að gefa starfinu raunverulegt vægi þurfa stjórnmálamenn að vera tilbúnir að ganga fram fyrir skjöldu og leggja sitt lóð á vogarskálina.

Athyglisvert er hve mikil gróska er um þessar mundir í norrænu samstarfi á vettvangi atvinnulífsins. Samruni og samstarf norrænna fyrirtækja er nánast orðið daglegt brauð. Þessa þróun er vert að styðja og á liðnu ári var að frumkvæði utanríkisviðskiptaráðherra landanna gerð úttekt á þeim hindrunum sem er fyrir slíku samstarfi í löggjöf landanna. Eins og við var að búast kenndi þar margra grasa og verður því samstarfi því fylgt eftir, m.a. af aldamótanefndinni. Ætlunin er og að gera átak hvað varðar aðstoð við þá sem flytja búferlum milli landanna til starfa eða náms. Þjónustusíminn ,,Halló Norðurlönd`` var stofnaður til reynslu fyrir tveimur árum í þessum tilgangi og þangað gefst almenningi kostur á að hringja endurgjaldslaust til að fá ráðleggingar og upplýsingar um réttindi sín samkvæmt norrænum samningum. Nú eru uppi áform um að auka þjónustuna og koma á símsvörun í öllum löndunum. Þessari aukningu fylgir þó nokkur kostnaðarauki og endanleg ákvörðun um framhaldið verður tekin á fundi okkar samstarfsráðherranna í júní í sumar.

Eftir að aðalskrifstofa Norðurlandaráðs flutti frá Stokkhólmi hefur norrænt samstarf þótt falla um of í skuggann þar í borg. Því ákváðu samstarfsráðherrarnir nýverið að opna upplýsingaskrifstofu, svokallaða ,,Informations fönster`` eða upplýsingaglugga við Sergel-torg í miðborg Stokkhólms og þegar hefur verið opnuð upplýsingaskrifstofa í Ósló heldur minni í sniðum.

[10:45]

Sem kunnugt er tóku Danir við formennskunni af okkur við síðustu áramót. Formennskuáætlun þeirra ber yfirskriftina ,,Norrænu velferðarsamfélögin``. Áhersla er þar lögð á að lýðræðishefðin, keimlík afstaða þjóðanna til félagslegrar ábyrgðar og viljinn til að hlúa að atvinnulífinu eigi rætur að rekja til sameiginlegs menningararfs norrænu þjóðanna. Á tímum síaukinnar alþjóðavæðingar leggja Danir áherslu á að nauðsynlegt sé að standa vörð um og kynna þessi gildi og við deilum skoðun þeirra á því.

Virðulegur forseti. Ég hef skýrt frá nokkru af því sem var á dagskrá ráðherranefndarinnar á liðnu ári og við upphaf þessa árs. Fjölmargt er þó ótalið og vísa ég um það til skýrslu samstarfsráðherra sem liggur hér frammi. Hún er unnin í samstarfi ráðuneytanna allra og gefur glögga mynd af því fjölbreytta og umfangsmikla starfi sem unnið er á norrænum vettvangi.

Að lokum vil ég þakka fulltrúum í Íslandsdeild Norðurlandaráðs fyrir gott starf og gott samstarf og óska þeim velfarnaðar á formennskuári Íslands í Norðurlandaráði.