Norræna ráðherranefndin 1999

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 11:18:44 (5986)

2000-04-06 11:18:44# 125. lþ. 94.1 fundur 470. mál: #A Norræna ráðherranefndin 1999# skýrsl, 422. mál: #A norrænt samstarf 1999# skýrsl, RG
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[11:18]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka þær inngangsræður sem hér hafa verið fluttar um norrænt samstarf og í stuttu yfirliti í þeim þremur ræðum var margan fróðleik að finna. Þó vil ég koma með alveg sérstaka ábendingu í upphafi máls míns í tilefni þess að á fundum okkar á Norðurlöndum kemur jafnan fram mikil hvatning um að taka þau mál eða málaflokka, sem verið er að fást við hverju sinni, fyrir í umræðu í þjóðþinginu. Ósjaldan er rætt um að fara verði með þessi eða hin málin inn í þjóðþingin, og að mikilvægt sé að þjóðþingin taki þátt í þeirri umræðu sem fer fram á vettvangi Norðurlandaráðs.

Í hvert sinn sem við sem hlustum á slíka hvatningu finnum við til þess að mál eru of lítið rædd í þjóðþinginu. Þegar skýrsla Norðurlandaráðs eða skýrsla samstarfsráðherra er flutt hér á þinginu eru afar fáir sem taka þátt í umræðum um þá skýrslu og þeir fáu eru gjarnan þeir sem eru í norrænu samstarfi og hafa setið þá fundi sem verið er að vitna til. Og ég held að ég mæli fyrir munn allra okkar, sem höfum verið virk í norrænu samstarfi, þegar ég held því fram að okkur langar til að umræðan sé öðruvísi, að þeir sem eru á fundum og virkir í samstarfinu miðli til hinna sem ekki eiga þess kost að vera á þeim ráðstefnum sem um er að ræða eða sitja fundina þar sem tekið er á samnorrænum viðfangsefnum.

Þar sem ég sat í upphafi fundar og horfði á tóman ráðherrabekkinn meðan samstarfsráðherra Siv Friðleifsdóttir hélt ræðu sína, þá áttaði ég mig á því hversu mikilvægt það er að margir ráðherrar væru hér viðstaddir og þingmenn gætu notað þá skýrslu sem hér er lögð fram og fylgir ræðu samstarfsráðherra til að beina fyrirspurnum til ólíkra ráðherra um hin ýmsu mál. Þess vegna fagna ég því sérstaklega að mættur er hæstv. utanrrh., Halldór Ásgrímsson, og tekur þátt í umræðunni. Ég beini því þess vegna bæði til forseta þingsins og þessara tveggja ráðherra hvort ekki sé ástæða til að við reynum að gera umræðuna um norrænt samstarf þannig, samstarfið sem ég lít á sem það mikilvægasta og þýðingarmesta fyrir okkur Íslendinga, að ráðherrarnir reyni að sjá af svo sem 1--2 klukkustundum þann dag sem umræðan fer fram og geti þá tekið þátt í umræðu um þau mál sem drepið er á í skýrslunni og varða ráðuneyti þeirra.

Með öðrum orðum, herra forseti, er ég að gefa það til kynna að umræða okkar í þjóðþinginu um norrænt samstarf sé veik, hún þurfi að vera betri og ég hvet til þess að við reynum að vinna bug á því.

Þegar ég lít á skýrslu samstarfsráðherranna, þá gríp ég niður í nokkur einstök mál sem mig langar að staldra við, m.a. samstarf á sviði orkumála sem er mjög áhugavert að lesa. Sömuleiðis kom forseti Norðurlandaráðs, Sigríður Anna Þórðardóttir, inn á sjónvarpsmálin sem beinlínis hafa verið vandræðaleg fyrir okkur og hafa dregið fram algert úrræðaleysi á Norðurlöndum með að ná niðurstöðu í þau mál. Við það að skoða hugmyndir sem hafa verið uppi um samstarf í orkumálum vakna auðvitað margar spurningar sem varða okkur sjálf og hvernig við og orkumál okkar, sem eru sérstæð, tengjast samstarfi Norðurlandanna. Vísað er til funda sem haldnir hafa verið hér og á Norðurlöndum og að á fundi orkuráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkja hafi verið ákveðið að leggja sérstaka áherslu á raforkumarkað, gasmarkað, orkustefnu, loftslagsmál og orkusparnað og útvíkka norrænu orkurannsóknaráætlunina þannig að hún nái einnig til Eystrasaltssvæðisins og eru löndin að veita sérstakt fjármagn til þessa verkefnis sem mér finnst vera mjög áhugavert. Það er á þennan hátt sem við eigum fyrst og fremst að beita okkur nú í samvinnu við Eystrasaltsríkin vegna þess að sú mikla áhersla á að fara með allt norrænt inn í Eystrasaltsríkin í kjölfar þess að þau opnuðust hefur kannski breyst og þarf að breytast þannig að við tökum fyrir sérstök viðfangsefni.

Mig langar líka til að heyra um það annaðhvort hjá samstarfsráðherra eða hæstv. utanrrh. hvernig útfærsla verður á norðlægu víddinni sem getið var um í ræðu hv. þm. Sigríðar Önnu Þórðardóttur. Í skýrslu Norðurlandaráðs kemur fram að Paavo Lipponen, forsætisráðherra Finnlands, ítrekaði það í ræðu sinni í lok janúar að Evrópusambandið hefði fallist á að norðlæga víddin yrði á aðgerðaáætlun sambandsins. Við höfum nokkrum sinnum nefnt þetta þýðingarmikla mál. Þetta er stórpólitískt mál fyrir þjóðir í Norður-Evrópu en í hvert sinn sem við höfum nefnt þetta og hversu mikilvægt það var að Paavo Lipponen skyldi ná þessu inn í aðgerðaáætlun sambandins þegar hann var með formennsku í Evrópsambandinu vaknar líka sú spurning hvernig þessi aðgerðaáætlun snúi að okkur Íslendingum. Hvar koma Íslendingar að þessu máli? Ég legg fram þá spurningu til hæstv. utanrrh. og samstarfsráðherra.

Annað sem ég vil benda á er að eins og getið er um málefni allra annarra ráðherra er hér getið um áhugaverð málefni á vettvangi dómsmrn. Á árlegum sumarfundi ákváðu dómsmálaráðherrar nýja framkvæmdaáætlun fyrir árið 1999--2000. Þar eru tilgreind sérstök forgangsverkefni sem ég er mjög hrifin af og fagna því. Þau tengjast því sem Samfylkingin hefur verið að gera. Hún hefur flutt á haustþingi gífurlega mörg mál sem varða réttindi barna og úrbætur í málefnum barna. Í hinni nýju framkvæmdaáætlun eru forgangsverkefni barátta gegn afbrotum ungs fólks og barátta gegn barnaklámi á netinu, alþjóðlegur sifjaréttur, kynferðisleg misnotkun barna, starf er varðar afbrotavarnir ásamt mörgu öðru sem hér er nefnt. Ég nefni þetta af því að þetta er eitt af þeim málefnum sem hefði verið mjög áhugavert að geta spurt hæstv. dómsmrh. nánar út í. Ég minnist þess ekki að hæstv. dómsmrh. hafi fjallað um í fjölmiðlum á hverju eigi að taka á norrænum vettvangi. Hins vegar höfum við öll orðið vör við að hæstv. dómsmrh. hefur leitað vestur um haf og átt þar samráð í málefnum sem varða fíkniefnavarnir og úrræði varðandi afbrotamál og frá mínum sjónarhóli séð er það ekki vettvangurinn sem ég mundi sækja í. Fyrst og fremst væri það hinn norræni vettvangur.

Á ráðstefnu á vegum Norðurlandaráðs fyrir einu eða tveimur árum vorum við með fulltrúa frá Evrópusambandinu. Þar kom fram að vitað væri að í Evrópu væri að finna barnavændishús og ég býst við að við séum öll sammála um að það sé eitthvert versta dæmi um þessi skelfilegu mál sem hafa verið að ríða yfir Vestur-Evrópu og hafa komið hingað til okkar. Þetta eru málefni sem væri áhugavert að ræða hér í þjóðþinginu og taka fyrir jafnvel í nefndum þingsins og hvernig verið er að taka á þeim á norrænum vettvangi.

Herra forseti. Ég ætla að víkja örlítið að skýrslu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs. Í upphafi vil ég nefna það um leið og ég fagna því að forseti okkar er Sigríður Anna Þórðardóttir, að síðustu þrír forsetar Norðurlandaráðs hafa verið konur. Það er mjög áhugavert vegna þess að það undirstrikar það jafnrétti sem hefur verið að festa rætur á Norðurlandaþingunum og endurspeglar stöðu kvenna bæði á heimaþingum og á norrænum vettvangi. Fyrstu ár mín í Norðurlandaráði voru karlar jafnan forsetar þó að við vitum önnur dæmi um að konur hafi gegnt því embætti fyrr á árum og þar með íslenskar.

Gífurlegar breytingar urðu á skipulagi Norðurlandaráðs þegar innra skipulagi þess var breytt í hina svokölluðu þrjá stólpa, þ.e. Norðurlandanefndina, Evrópunefndina og nærsvæðanefndina. Áður fyrr var verkefni Norðurlandaráðs á vettvangi Norðurlandanefndarinnar einnar í dag. Ég hef allan tímann frá því að þessi breyting var gerð minnt á að þýðingarmesta samstarfið er samstarf Norðurlandanna sjálfra og við megum aldrei missa sjónar á því í umfjöllun okkar um þetta samstarf. Auðvitað höfum við þurft að líta til Evrópu og það er mikilvægt að gefa Evrópumálunum gaum og ástæða var til að sérstök nefnd yrði sett í það. Einnig voru pólitískir hlutir að gerast í Eystrasaltslöndunum sem urðu til þess að Norðurlöndin ákváðu að verða mikil hjálparhella og stuðningslönd við þá lýðræðisþróun sem þar átti sér stað. Hins vegar hefur það verið að gerast að menn hafa verið að draga úr fjárveitingum til Norðurlandaráðs. Fjárlög Norðurlandaráðs eru, ef upplýsingar mínar eru réttar, óbreytt frá árinu 1995. Þrátt fyrir það renna núna um 140 millj. danskra króna til nærsvæðasamstarfsins sem þýðir að við erum að veita miklu minna fjármagn til hins eiginlega samstarfs en áður gerðist.

Nú er ég ekki stjórnmálamaður sem mælir allt í krónum og aurum. En það er alveg ljóst að í þessu tilfelli erum við að draga úr samstarfi með því að draga úr fjármagni og dreifa því sem gekk til norræns samstarfs yfir á bæði Evrópusamstarf og nærsvæðasamstarf. Yfir þessu eigum við að vaka. Það eru skilaboð mín.

Mig langar líka, herra forseti, af því að ég gat um barnamálin, sem heyra undir dómsmrn. og komu fram í skýrslu samstarfsráðherra, að víkja að því að Norðurlandanefndin var með vinnuhóp um börn og unglinga og hélt vinnufund á Egilsstöðum í lok maí í fyrra. Þar voru mjög áhugaverð verkefni tekin fyrir og niðurstaða vinnuhópsins hefur verið birt í sértakri tillögu. Í tilmælunum felst m.a. að skorað er á norrænu ráðherranefndina að vinna sérstaka aðgerðaáætlun fyrir börn og unglinga, að þróa norræna samvinnu um andlega heilsu barna, að hafa samvinnu við norræna umboðsmenn barna um að skýrgreina hvað felist í hugtakinu ,,barnets beste``, --- það besta fyrir börnin --- að vinna að því að tryggja hagsmuni barna innan réttarkerfisins, og að innleiða og framkvæma barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Herra forseti. Því hlýt ég að minna á að hér fyrir þinginu liggur þáltill. um að yfirfara íslensk lög með tilliti til barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og gera úrbætur á þeim lögum þar sem er ábótavant. Ég hvet því til þess að á sama tíma og ég les áherslur Norðurlandanefndarinnar á að innleiða og framkvæma barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, að eitthvað felist í því að taka þessa umræðu í heimaþinginu og að við bregðumst þá við. Þar sem svo vill til að tillaga liggur fyrir, þá hvet ég til þess að sú tillaga verði ein af þeim tillögum sem ná fram að ganga á vori komanda.

Fleira sem nefnt er varðandi börnin er að unnin verði rannsókn á aðstæðum barna og ungs fólks í dreifðum byggðum á Norðurlöndunum. Þetta er gífurlega mikilvægt, að unnin verði rannsókn á aðstæðum barna og ungs fólks og skoðaðir verði líka möguleikar til menntunar og félagslegra aðstæðna, sérstaklega barna og unglinga í þéttbýli, og afla þekkingar á kostum og göllum þess að vera barn eða unglingur í dreifbýli og svo þróun upplýsingatækninnar. Þá hlýt ég að spyrja þá sem málið varðar og þekkja: Hvernig ætlum við að kanna þessi mál á Íslandi? Hvernig ætlum við standa að þeirri vinnu hér á landi? Ég vil gjarnan sjá að það verði gert á öflugan hátt og leggja því lið.

Herra forseti. Síðasta ráðstefnan sem ég sótti á þessu ári var þemaráðstefna um þekkingu og vöxt á Norðurlöndum sem áðan var getið um. Þar var skyggnst markvisst til framtíðar og menn gerðu sér grein fyrir því hvaða gífurlegar þjóðsfélagsbreytingar eru að verða, bæði á Norðurlöndum og í Evrópu. Hvert ætlum við að stefna og hvernig? Þetta var góð ráðstefna og ég mundi vilja sjá slíka umræðu fara fram hér á landi. Þar var spurt hvort Norðurlönd gætu orðið heimamarkaður. Staða Norðurlandanna var dregin fram í hnattvæðingunni, svo og í Evrópu og staða okkar í Evrópu. Þetta var gífurlega góð ráðstefna, ein sú besta sem ég hef sótt á Norðurlöndunum. Og mig langar til að slík umræða færist inn í íslenskt samfélag og við gætum staðið fyrir því að slík umræða fari fram hér heima. Mér finnst þemaráðstefnur mjög góður þáttur í starfi Norðurlandaráðs, sérstaklega þegar þess er gætt að fulltrúar viðkomandi fagnefnda í þjóðþingunum fái að sækja þær en á því hefur verið brestur hjá okkur í íslenska þjóðþinginu. Ég vil hvetja til þess að fólk sem á sæti í fagnefndunum hér sæki slíkar þemaráðstefnur og að haldið verði áfram á sömu braut með þær.