Norræna ráðherranefndin 1999

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 11:35:37 (5988)

2000-04-06 11:35:37# 125. lþ. 94.1 fundur 470. mál: #A Norræna ráðherranefndin 1999# skýrsl, 422. mál: #A norrænt samstarf 1999# skýrsl, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[11:35]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir hafi annaðhvort misskilið ræðu mína hrapallega eða alls ekki heyrt hvað ég var að segja vegna þess að ég var að telja upp þau forgangsverkefni sem hún var að endurtaka í ræðustól og draga fram hve mér fyndist áhugavert að samstarf dómsmálaráðherra á Norðurlöndunum væri í þessum farvegi.

Það er persónuleg skoðun mín að ekki sé mikið að sækja til Bandaríkjanna hvorki varðandi vímuefnavarnir né forvarnamál. Ég er fylgjandi því að ráðherrar og fólk í pólitík og allir sem vilja efla sig geri sem mest af því að skoða hvað er að gerast í heiminum. Ég er að benda á að á sama tíma og mér finnst að ekki hafi verið farið rétt að í Bandaríkjunum þar sem fangelsin eru yfirfull af ungmennum vegna fíkniefnabrota af því að einu úrræðin eru að fangelsa þá hef ég tekið eftir því að för dómsmálaráðherra til Bandaríkjanna hefur fengið mjög gott og mikið rými í fjölmiðlum og þar með fékk ég að vita hvað hún var að sækja þangað. Ég hef ekki séð mikið af því að dómsmrh. okkar væri að segja frá því í fjölmiðlum hvað er að gerast á norrænum vettvangi, hvaða forgangsverkefni eru þar. Það er það sem mig langar að sé gert, því sé haldið á lofti og að við eigum að vinna inn í landið okkar það sem er verið að takast á um saman á Norðurlöndunum.

Þetta er inntakið í því sem ég beindi sjónum að fyrir utan að leggja áherslu á að ef ráðherrarnir væru hér þegar við förum yfir skýrsluna, gætum við beint þeim spurningum til ráðherranna, hvað hefði verið að gerast og hvað er að gerast heima í þessum málum. Það getum við ekki gert með þessu vinnulagi.