Norræna ráðherranefndin 1999

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 12:20:08 (5994)

2000-04-06 12:20:08# 125. lþ. 94.1 fundur 470. mál: #A Norræna ráðherranefndin 1999# skýrsl, 422. mál: #A norrænt samstarf 1999# skýrsl, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[12:20]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. samstarfsráðherra fyrir hvernig hún reyndi að fara yfir þær spurningar sem við bárum fram hér í umræðunni og þau mál sem hér hefur borið á góma. Þetta hefur verið mjög gagnlegt. Auðvitað vakna nýjar spurningar. En við ætlum líka að ræða hér frekar um Vest-Norðurlöndin. Ég vil taka undir það að mér finnst það vera farið að ná í gegn á norrænum vettvangi að líta þurfi í vest-norður því að á tímabili vorum við e.t.v. svolítið í hættu stödd og átti það við um öll löndin í vestri og jafnvel að Norðmennirnir fyndu það.

Ég ætla líka að taka undir að sátt var um skipulagsbreytingu á Norðurlandaráði um svokallaða þrjá stólpa. En einnig var mjög mikill áhugi á að sinna Eystrasaltsríkjunum eins og kom fram í ræðu minni og sjálf studdi ég það eins og allir aðrir. En ég minnist þess líka að ákefðin var svo mikil hjá Norðurlöndunum að menn urðu hreinlega að biðjast undan fjármögnun svo margra verkefna og báðu fyrst og fremst um hjálp á lagasviði. Þetta var nú í upphafi og ég segi þetta í góðum tón vegna þess að það var mikil ákefð að hjálpa til.

Ég bind vonir við gáfumannahópinn og endurskoðunina sem hann mun hrinda af stað. Ég trúi því að þar verði bent á breyttar áherslur og að við munum nálgast t.d. aðstoð í austurátt á annan hátt en áður í næstu framtíð. Hvað varðar norðlægu víddina og umhverfismálin, þá skipta samtvinnuð umhverfis- og orkumál á nærsvæðunum í austri auðvitað mjög miklu máli, en ég er alltaf frekar spennt fyrir því að vita hvernig við munum koma að verkefnum í norðlægu víddinni.

Ég þakka samstarfsráðherra aftur fyrir svör hennar.