Vestnorræna ráðið 1999

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 14:20:30 (6012)

2000-04-06 14:20:30# 125. lþ. 94.3 fundur 388. mál: #A Vestnorræna ráðið 1999# skýrsl, 461. mál: #A ályktanir Vestnorræna ráðsins# þál. 15/125, ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[14:20]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstvirtur forseti. Ég vil koma hér eingöngu til að fagna því hversu öflugt starf hefur verið hjá Vestnorræna ráðinu á síðasta ári. Ég átti þess kost að sitja á fundinum sem haldinn var á Brjánsstöðum á síðasta ári þar sem voru einmitt samþykktar þær tillögur sem liggja fyrir í formi þáltill. og ég tel það afskaplega mikilvægt starf sem þarna fer fram. Ég vildi einnig nefna það sem umhugsunarefni hvort Vestnorræna ráðið ætti að tengjast betur inn á Skotland og nefni þá sérstaklega Orkneyjar og Hjaltlandseyjar, og vísa til sögulegra tengsla þessara þjóða og þessara landsvæða. Hv. þm. Árni Johnsen nefndi það einmitt áðan að tengsl við Skotland væru kannski þáttur sem ætti að skoða. Ég tel mikilvægt að íhuga það mjög vel hvort þarna sé vettvangur sem Vestnorrænu þjóðirnar hefðu hag af því að vinna með og nefni aftur sérstaklega skosku hálöndin, Orkneyjar og Hjaltlandseyjar.

Ég átti þess kost að sitja á málþingi þar sem fyrirlesarar voru frá þessum stöðum. Þeir töldu mjög mikilvægt að tengjast Íslandi og Færeyjum vegna þess að það væru svo lík hagsmunamál sem þessi landsvæði væru að fást við. Þetta málþing var á vegum breska sendiráðsins og þarna voru menn að ræða m.a. menntamál, fiskveiðistjórnarmál og upplýsingatæknimál. Það kom mjög skýrt fram hjá þeim að þeir töldu sig eiga miklu meira að sækja norður eftir, til okkar, en suður til Suður-Englands, til London og töldu sig reyndar ekki hafa mjög mikið að sækja til Glasgow og Edinborgar sem eru stórborgir Skotanna.

Ég held að samstarf gæti fært okkur mjög mikið. Það er t.d. mjög merkilegur dreifður háskóli í Skotlandi sem er áhugavert að kynna sér. Þeir hafa einig farið sérstakar leiðir í fiskveiðimálum. Eins og við vitum er upplýsingatækniþjónusta og upplýsingatækniiðnaður mjög öflugur á þessum svæðum sem ég held að við getum lært mjög mikið af.

Hæstv. forseti. Ég vildi einnig fagna sérstaklega þeirri tillögu sem liggur fyrir um ályktanir Vestnorræna ráðsins. Það var satt að segja mjög sérstök upplifun að heyra að nú eru jafnréttismál orðin aðalmál Vestnorræna ráðsins og birtast í þessari till. til þál. og ánægjulegt að finna og heyra það að jafnréttismál eru slík stórmál og eins og formaður Vestnorræna ráðsins, hv. þm. Árni Johnsen, fór yfir, þá skipta þessi mál, þessi málaflokkur jafnréttismál, allt samfélagið mjög miklu máli. Ég vil fagna því að í framsöguræðu formannsins, og ég vonast til að sem flestir kynni sér efni hennar, kom mjög berlega í ljós hversu mikið mál er um að ræða.

Eins og hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir nefndi áðan er mjög gaman að það skuli koma fram á þessu þingi það sem kemur hér fram í f-liðnum, að fela ríkisstjórninni að vinna að því að stofna sjóð eða koma á öðru fyrirkomulagi sem greiði allan kostnað af fæðingarorlofi. Eins og við vitum kemur inn í þingið núna á næstu dögum tillaga þess efnis sem er hvað mesta framfaramál að mínu áliti varðandi jafnréttismál og fjölskyldumál sem við höfum séð í mjög langan tíma og er byltingarkennd tillaga. Ég held það gæti verið ósk okkar allra að slíkar áherslur nái fram að ganga, einnig í hinum vestnorrænu löndunum, Færeyjum og Grænlandi.

Að síðustu vildi ég nefna þá áherslu sem er varðandi það að rannsaka hvað hindrar vestnorræna stúdenta í að stunda nám í öðrum vestnorrænum ríkjum. Það er alveg klárt að þegar námsfólk fer á milli landa er mjög mikið hagsmunamál hverrar þjóðar að taka á móti erlendum stúdentum og það er stór þáttur í utanríkispólitík margra landa. Ég átti þess kost að ræða við breska þingmenn sem töldu það vera mjög mikla afturför í breskri utanríkispólitík þegar Bretar hættu að fella niður skólagjöld fyrir erlenda stúdenta. Eins og margir þekkja kannski telja Þjóðverjar að það að styrkja erlenda stúdenta í landi sínu sé hreint efnahagslegt spursmál því þegar stúdentar koma heim til sín nýta þeir þá tækni og þekkingu sem þeir hafa kynnst í því landi þar sem þeir stunduðu nám sitt. Það að reyna að hafa áhrif á það að stúdentar frá þessum löndum, frá Færeyjum og Grænlandi, stundi nám á Íslandi, Íslendingar fari til náms í Færeyjum og Grænlandi, er auðvitað mikið mál og hefur marga vinkla sem við getum haft hag af.

Hæstv. forseti. Enn og aftur, þetta var ánægjulegt að heyra um áherslur Vestnorræna ráðsins og að það skuli vera jafnréttismál sem þeir hafa sem aðaláherslumál.