Vestnorræna ráðið 1999

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 14:44:25 (6017)

2000-04-06 14:44:25# 125. lþ. 94.3 fundur 388. mál: #A Vestnorræna ráðið 1999# skýrsl, 461. mál: #A ályktanir Vestnorræna ráðsins# þál. 15/125, Flm. ÁJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[14:44]

Flm. (Árni Johnsen) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir orð hv. síðasta ræðumanns. Það er mjög mikilvægt að þarna sé samfelldur taktur á milli starfs bæði Vestnorræna ráðsins og stóra bróður, Norðurlandaráðs. Því miður er það svo að þessi þrjú eylönd í norðurkantinum hafa verið svolítið einangruð alveg eins og Ísland hefur að sumu leyti verið svona fylgifiskur í Norðurlandaráði, þó að það starf skipti auðvitað miklu máli. En öflugu þjóðirnar þar stýra hlutunum og þar er skriffinnska mikil. Það er meira unnið á persónulegum nótum í Vestnorræna ráðinu og meiri beintenging við umhverfi, land, þjóð og atvinnulíf o.s.frv. Það hefur skilað okkur áleiðis og ráðherrar okkar hafa fylgt þeim málum vel eftir á undanförnum árum, ræktað þessi samskipti og aukið þau. Þegar við hugsum til lengri tíma erum við um leið að gera tvennt, við erum að verja hagsmuni okkar, auðlindahagsmuni, inn í framtíðina og eðlileg samskipti við næstu granna okkar sem eiga að byggjast á vinarþeli, orði sem er erfitt að þýða á önnur tungumál.