Staðfesting ýmissa ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 15:39:27 (6036)

2000-04-06 15:39:27# 125. lþ. 94.11 fundur 587. mál: #A staðfesting ýmissa ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar# þál. 12/125, utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[15:39]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þessari þáltill. er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar ýmissa ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á viðaukum og bókunum við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Gerð er grein fyrir efni ákvarðananna í tillögunni og einnig eru þær prentaðar sem fylgiskjöl með henni.

Ákvarðanir þessar kalla allar á lagabreytingar hér á landi og voru teknar af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á viðaukum eða bókunum við EES-samninginn eru þjóðréttarsamningar. Samkvæmt EES-samningnum verða þær skuldbindandi fyrir aðildarríkin um leið og þær hafa verið teknar nema eitthvert þeirra beiti heimild í 103. gr. samningsins til að gera fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Hafa ríkin sex mánuði samkvæmt þessum sama samningi, þ.e. frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni, til þess að aflétta fyrirvaranum. Með þessu er vísað til nauðsynlegs atbeina þjóðþinga aðildarríkjanna og af hálfu Íslands hefur fyrirvara þessum því einungis verið beitt þegar ljóst er að ákvörðunin kallar á lagabreytingar í samræmi við 21. gr. stjórnarskrárinnar.

Á þeim sex árum sem liðin eru frá því að EES-samningurinn tók gildi hefur Ísland beitt þessum fyrirvara vegna 38 af u.þ.b. 700 ákvörðunum EES-nefndarinnar. Af ýmsum samverkandi ástæðum hefur Ísland staðið sig verst EFTA/EES-ríkjanna við að aflétta stjórnskipulegum fyrirvörum innan hins samningsbundna frests ef svo má komast að orði.

Nú er svo komið að upp hafa safnast 19 ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar sem Ísland hefur gert stjórnskipulegan fyrirvara við og eru 13 þeirra orðnar eldri en sex mánaða, en eins og ég gat um áður gerir samningurinn um EES sem staðfestur var af Alþingi á sínum tíma, ráð fyrir því að þessu ferli sé lokið innan sex mánaða. Þetta hefur annars vegar í för með sér að viðeigandi ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar ganga hvorki í gildi á Íslandi né í hinum aðildarríkjunum og hins vegar að Ísland gæti staðið frammi fyrir því að önnur aðildarríki fari fram á að frestað verði framkvæmd einstakra viðauka samningsins eða hluta þeirra gagnvart Íslandi í samræmi við 102. gr. EES-samningsins.

Að undanförnu hafa samstarfsríkin innan EES og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lýst yfir vaxandi áhyggjum vegna tafa á afturköllun stjórnskipulegra fyrirvara sem Ísland hefur gert og verður að telja nauðsynlegt að grípa til aðgerða til þess að bæta hér um. Því var tekin ákvörðun um að leita í einu lagi eftir samþykki Alþingis til staðfestingar umræddra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar og jafnframt að taka eftirleiðis upp það fyrirkomulag að leita sérstaklega eftir samþykki Alþingis til staðfestingar sérhverri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem stjórnskipulegur fyrirvari hefur verið gerður við. Slíks samþykkis verður þá leitað í formi þingsályktunartillögu er hlutaðeigandi ráðuneyti undirbúi samhliða nauðsynlegum frumvörpum til lagabreytinga. Jafnframt verður þeirri föstu vinnureglu komið á með vísan til 24. gr. þingskapa að haft verði samráð við utanrmn. um efni þessara ákvarðana meðan þær eru á undirbúningsstigi. Þessi meðferð ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar samsvarar betur stjórnskipulegum venjum okkar við meðferð þjóðréttarsamninga, auk þess verður aðkoma Alþingis að ákvarðantöku nefndarinnar tryggari og betri yfirsýn fæst um þróun samningsins.

Herra forseti. Ég tel að nokkuð hafi á það skort á undanförnum árum að Alþingi hafi komið með viðeigandi hætti að þessu máli, bæði á undirbúningsstigi og ekki nægilega tímanlega heldur eftir að sameiginlega EES-nefndin hefur tekið sínar ákvarðanir. Þessi mál hafa verið til umfjöllunar í mörgum nefndum þingsins en ekki á einum stað. Með þessu fyrirkomulagi er miklu tryggara að Alþingi komi að málinu mun fyrr, fyrir utan það að með þessu fyrirkomulagi hefur ein nefnd þingsins, þ.e. hv. utanrmn., miklu meiri yfirsýn yfir málið í heild og ætti þar með að geta haft meiri áhrif á þróun mála og eftir því hefur verið kallað af hv. Alþingi að undanförnu. Með þessu eru stjórnvöld að koma til móts við þessa sjálfsögðu kröfu Alþingis að því er varðar málefni sem tengjast EES-samningnum.

Ég vil að lokum, herra forseti, leggja til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanrmn.