Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 16:29:37 (6042)

2000-04-06 16:29:37# 125. lþ. 94.13 fundur 553. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárafurðir) frv. 88/2000, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[16:29]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég dreg ekkert úr mikilvægi þess að unnt verði að stækka búin og ég geri mér fulla grein fyrir því að með frjálsu framsali skapast mun meiri möguleikar til þess. Það er ekki það eina sem skiptir máli, hvorki í þessari atvinnugrein né annarri. Það er ekki alltaf magnið sem skilar bestum árangri og skoðanir hafa komið fram í mörgum tilvikum á því hvers vegna ákveðnum atvinnugreinum hefur hrakað. Og eitt af því sem hagfræðingar hafa skilgreint í því sambandi er að sum fyrirtæki eru haldin magnsjúkdómum og halda að allt fáist með meiri veltu.

Ég er hins vegar sammála því að það þarf að stækka búin og þarna skapast ákveðið svigrúm til þess. Í þessum samningi er ekki verið að hvetja til mikillar framleiðslu. Það er frekar til að draga úr framleiðslu að þetta ásetningshlutfall er sett án þess þó að það komi í veg fyrir að menn nái nauðsynlegri hagræðingu og það held ég að ætti að vera alveg ljóst. Hér er því ekki um framleiðsluhvetjandi aðgerðir að ræða. Þvert á móti er verið að draga úr framleiðslunni, ekki síst með þeim uppkaupum sem ég vænti að hv. þm. geti stutt miðað við þann málflutning sem hann hefur haft hér í frammi, því það ætti m.a. að leiða til þeirrar niðurstöðu sem hann hefur verið að tala fyrir.