Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 17:48:29 (6057)

2000-04-06 17:48:29# 125. lþ. 94.13 fundur 553. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárafurðir) frv. 88/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[17:48]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Vistvænar afurðir eru sífellt að verða vinsælli. Markaðurinn sér um að menn eru tilbúnir til að borga meira fyrir mjólk sem er vottuð. Menn eru tilbúnir til að borga meira fyrir kjöt sem er vottað að sé vistvænt. Þetta hefur sýnt sig alls staðar. En hér á landi erum við með miðstýrt kerfi sem byggir á því að t.d. geymslu- og frystikostnaður er niðurgreiddur á allt kjöt þannig að þeir sem framleiða vistvænt kjöt komast ekki fram hjá kerfinu. Þetta skal allt fara í sama farveginn.

Eins og hv. þm. sagði áður í umræðunni eiga allir bændur að fara í gegnum gæðakerfið. Hvernig á þá að vinsa skussana frá?

Herra forseti. Hv. þm. sagði að bændur væru heiðarlegir. Það er ljómandi gott að búið er að finna a.m.k. eina stétt í þjóðfélaginu sem er heiðarleg og svíkur ekki undan skatti. Það er fínt mál og gott að fá svona siðgæðisvottorð frá klerkinum.

Herra forseti. Hv. þm. sagði að gæðastýringin mætti ekki verða bákn og hann vonaði að hún yrði ekki bákn og hann tryði því að hún yrði ekki bákn. Ég segi nú ekki annað en: ,,Mikil er trú þín, kona.``