Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 17:50:53 (6059)

2000-04-06 17:50:53# 125. lþ. 94.13 fundur 553. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárafurðir) frv. 88/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[17:50]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að fáar þjóðir búi við jafnmiklar kvaðir og hömlur á innflutningi landbúnaðarafurða og Íslendingar. Sú spurning hefur a.m.k. vaknað hjá mér af hverju ég er hættur að kaupa grænmeti. Ég hef spurt að því í hv. efh.- og viðskn. hvernig standi á því að ég er hættur að kaupa grænmeti. Það er orðið svo dýrt. Það veldur því að ég er hættur að kaupa það að mestu leyti.

Ég vona, herra forseti, að engum bónda detti í hug að framleiða appelsínur því þá mundu þær kosta 4.000 kr. kg og ég hefði ekki efni á að kaupa þær. Einhverjum bónda datt í hug að framleiða papriku og síðan hef ég ekki getað keypt papriku á Íslandi. Þetta er dæmigert fyrir það kerfi sem við búum við og ég skora á hv. þm. að hugleiða hvort ekki þurfi að taka allt þetta kerfi til endurskoðunar og gera bændum kleift að verða frjálsir menn og standa hnarreistir og skila þjóðarbúi sínu eins og þeir hafa gert þannig að bú verði landstólpi eins og var í eina tíð.