Þátttaka Íslands í Schengen-samstarfinu

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 19:26:09 (6076)

2000-04-06 19:26:09# 125. lþ. 94.15 fundur 237. mál: #A þátttaka Íslands í Schengen-samstarfinu# (breyting ýmissa laga) frv. 15/2000, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[19:26]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef margoft tekið þátt í umræðu hér á hv. Alþingi um þetta Schengen-mál og farið yfir málið á ýmsan hátt. Ég veit ekki hvort allir hv. þm. hafa hlustað á málflutning minn. Ég hef í sjálfu sér engu við það að bæta. Skýrslan sem hv. þm. vitnar til breytir engu um skoðun mína í þessu sambandi. Ég tel að hún hreki á engan hátt þann málflutning sem ég hef haft uppi í málinu.

Það er alveg ljóst að í þessu máli sem öðrum eru misjafnar skoðanir. Ég tel að þessi skýrsla taki ekki á málinu í heild sinni. Það hefur mikið verið unnið í þessu máli og mikið af gögnum komið fram. Ég tel að ég hafi svarað því sem fram hefur komið. Auðvitað get ég haft um það mörg orð en ég á ekki von á að það verði til þess að ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson verðum sammála um það.

Varðandi spurningu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur áðan, um hvort við getum verið aðilar að upplýsingakerfinu en ekki verið aðilar að Schengen-samningnum, þá svara ég þeirri spurningu hiklaust neitandi. Upplýsingakerfið og aðildin að því er hluti af Schengen-samningnum. Þar af leiðandi verðum við að vera annaðhvort aðilar að þessu samstarfi í heild sinni eða standa utan við það. Ég tel að það sé alveg ljóst.