Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 20:26:45 (6098)

2000-04-06 20:26:45# 125. lþ. 94.21 fundur 547. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (hlutabréf, lífeyrisiðgjöld o.fl.) frv. 86/2000, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[20:26]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vildi fjalla lítillega um tvö af þremur meginatriðum þessa frv. Annars vegar þar sem fjallað er um skattlagningu tekna vegna kaupa á hlutabréfum, sem auðvitað er mjög mikilvægt að hafa reglur um. Hins vegar á ég við ákvæði í þessu frv. sem lýtur að skattalegri meðferð lífeyrisiðgjalda til að örva sparnað.

Eins og ég sagði, varðandi skattlagningu tekna vegna kaupa á hlutabréfum, þá er auðvitað mjög mikilvægt að um skattalega meðferð þeirra gildi ákveðnar reglur. Mér sýnist að sú leið sem hæstv. fjmrh. hefur valið í þessu efni sé sú sem farin hefur verið í Bandaríkjunum. Þar hafa verið notaðar tvær aðferðir, annars vegar varðandi samninga sem ekki eru háðir sérstökum skilyrðum þar sem greiddur er fullur tekjuskattur af og hins vegar er sú sérregla sem hæstv. ráðherra lýsti hér. Hún gildir við ákveðin skilyrði en þá er einungis greiddur 10% fjármagnstekjur sé sú leið valin.

Það er einmitt varðandi þessa sérreglu sem ég hef ákveðnar spurningar til hæstv. ráðherra. Ég hef ýmsar efasemdir um hana. Í fyrsta lagi er eins og menn þekkja að færast í vöxt að hluti launa sé greiddur með hlunnindum, hlutabréfum og kauprétti í þeim, það þekkjum við af því sem hefur verið að gerast á undanförnum vikum og mánuðum á fjármálamarkaði. Maður veltir fyrir sér þegar kominn er upp þessi möguleiki, að greiða kannski hluta af launum upp að tilteknu marki og hér er miðað við hámark kaupréttar upp að 600 þús. kr., hvort það sé ekki hvati til að stýra launum inn í þann farveg að einungis sé greiddur 10% skattur, meðan aðrir sem ekki hafa þessa möguleika greiða fullan skatt. Þessu vildi ég a.m.k. hreyfa. Ég tel að þetta gæti verið hvati til að auka það að laun verði að einhverju leyti greidd með þessum hætti, þ.e. þegar um er að ræða mismunandi álagningu í skattinum eftir því hvort um er að ræða beinar launatekjur eða hvort greitt er með hlunnindum, í þessu tilviki með kauprétti að hlutabréfum.

Það sem einnig vakti athygli mína að því er þennan þátt varðar er að mér sýnist að gert sé ráð fyrir að einungis fastráðnir starfsmenn geti nýtt sér þessa sérreglu en verktakar, ráðgjafar eða t.d. stjórnarmenn í félagi sem ekki eru fastráðnir, geti ekki notað þessa sérreglu.

[20:30]

Nú geri ég ráð fyrir að þegar verið er að tala um verktaka þá nái það til einyrkja eða þeirra sem eru á svona verktakagreiðslum einhvers konar og nú er í vaxandi mæli hjá fyrirtækjum verið að bjóða þeim sem eru raunverulega ekkert annað en launþegar upp á verktakafyrirkomulagið, m.a. til þess að viðkomandi atvinnurekendur sleppi þá við að greiða tilskilin gjöld í lífeyrissjóð o.s.frv. fyrir viðkomandi. Ég skil ekki af hverju þeir eigi þá að gjalda þess sem hafa ekki möguleika á öðru en slíku fyrirkomulagi, þ.e. að þeir geti ekki notið slíks réttar. Segjum sem svo að fyrirtæki sem þeir vinna hjá, þar sem þeir þiggja ákveðnar verktakagreiðslur, væri hugsanlega á hlutabréfamarkaði og vildi bjóða slíkar greiðslur til þeirra þá virðast þessir aðilar undanþegnir því að geta fengið þá skattalegu meðferð sem um ræðir í 8. gr. B, þ.e. þegar kaupréttur að hlutabréfum í viðkomandi félagi nær til allra starfsmanna, sem er eitt af skilyrðunum og mér finnst út af fyrir sig alveg ágætt.

Síðan hefði ég viljað fá einhverja skýringu á því, og má það auðvitað bíða starfsins í efh.- og viðskn. ef hæstv. ráðherra hefur ekki á takteinum svör við því, og velti því fyrir mér af hverju sé verið að velja þennan eignarhaldstíma á bréfunum, af hverju starfsmaður þurfi að eiga hlutabréfin í tvö ár eftir að kauprétturinn er nýttur. En mér skilst líka, sem er náttúrlega verulegt hagræði fyrir viðkomandi og hvati til þess að það verði leitað með hluta launanna inn í þetta form, að skattskylda stofnast ekki fyrr en þá við sölu bréfanna.

Við munum því auðvitað skoða þetta vandlega sem hér er lagt til en ég ítreka það að ég er auðvitað hlynnt því að um þetta gildi skýrar skattalegar reglur að því er varðar meðferð á slíkum hlutabréfum samkvæmt kauprétti.

Hitt atriðið sem er stóra atriðið í þessu frv. er skattaleg meðferð lífeyrisiðgjalda og ég held að hér sé verið að fara mjög góða leið, þ.e. að reyna að örva þjóðhagslegan sparnað í landinu. Ekki veitir af vegna þess, eins og við fórum yfir hér fyrir jólin, að Þjóðhagsstofnun og Seðlabanki hafa einmitt varað við því hvað þjóðhagslegur sparnaður hér er lítill og hefur ekki í langan tíma verið eins lítill eða 14% af landsframleiðslu. Ég man eftir að í umsögn þeirra fyrir jólin kom fram að hann þyrfti að vera 19% af landsframleiðslu bara til þess að standa undir áformuðum fjárfestingum á þessu ári.

Mér fundust mjög athyglisverðar þær tölur sem hæstv. ráðherra var að upplýsa hér um þá könnun sem hefur verið gerð til þess að athuga þátttöku landsmanna í viðbótarlífeyri sem var opnað fyrir fyrir ekki löngu síðan. Ég verð satt að segja að taka undir með ráðherra að þetta kemur nokkuð á óvart því að stór hluti þjóðarinnar er þátttakandi í þessum viðbótarsparnaði þar sem um það er að ræða að 27% þjóðarinnar hefur nýtt sér leið viðbótarsparnaðar eða viðbótarlífeyris. Það er líka mjög merkilegt í þeirri könnun að konur hafa frekar nýtt sér þessa sparnaðarleið en karlar og þarf þó ekki að fara mörgum orðum um það að í heildina tekið hafa konur lægri laun en karlar. (Fjmrh.: Þær eru hyggnari.) Ég ætlaði einmitt að fara að segja það líka að þær eru hagsýnni heldur en karlmennirnir og hyggnari eins og hæstv. fjmrh. sagði og ég held ég verði bara að taka undir það þegar litið er til þess mikla launamunar sem er milli kynjanna að konur séu þarna hagsýnni, spari meira og leggi meira til hliðar í viðbótarlífeyri. Það kemur virkilega á óvart í þessari könnun og líka það sem hæstv. ráðherra nefndi að enn stærri hluti þjóðarinnar, eða um 40%, vilja gjarnan geta bætt við þennan viðbótarsparnað sem verið er að opna á með þessari leið.

Hæstv. ráðherra nefndi hér einnig það frv. sem fylgir þessu og hann mælir fyrir á eftir. Ég vil aðeins segja nokkur orð um það af því að það tengist, herra forseti, þessu frv., að þar er lagt til að hlutfall tryggingagjalds, sem launagreiðendur eða menn sem vinna við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi geta haldið eftir af gjaldstofni tryggingagjalds ef sá hluti er lagður fram sem mótframlag við iðgjaldshluta launamanns vegna viðbótarlífeyrissparnaðar, verði hækkað úr 0,2% í 0,4%. Þetta er alveg ágætisleið sem hæstv. ráðherra leggur til í þessu sambandi og tryggir að hægt sé að fara út í að auka enn frekar á þennan viðbótarlífeyrissparnað sem var byrjað á fyrir nokkru síðan.

En þar velti ég aftur fyrir mér, herra forseti, einyrkjunum og þeim sem eru á verktakasamningi við fyrirtækin, hver staða þeirra er við þessa breytingu. Þessir einyrkjar þurfa að greiða tryggingagjald þó þeir séu ekkert annað en launþegar og það finnst mér vera mál sem tími er til kominn að skoða, þ.e. hvort rétt sé og eðlilegt að þeir sem þurfa eða eru raunverulega knúnir til þess að vera í slíku launafyrirkomulagi eins og þarna er af því að þeim er ekki boðið upp á annað t.d. af sínum vinnuveitanda, þurfi að greiða tryggingagjald. Og þeir greiða sjálfir mótframlag atvinnurekanda ef þeir ætla að ná sér upp yfir 10% sem hinn almenni launamaður hefur. Ég spyr þá líka um stöðu þeirra gagnvart þessum viðbótarsparnaði og hvort ekki hafi verið hugsað fyrir því. Mér finnst alveg sjálfsagt að skoða það í leiðinni þegar þetta frv. fer til umfjöllunar í efh.- og viðskn.

Herra forseti. Í lokin vildi ég spyrja hvort frv. eins og það er lagt fram hér sé unnið í fullu samráði við lífeyrissjóðina og hvort þeir séu sáttir við þá breytingu sem hér er lögð til. Ég held að það skipti verulegu máli að lífeyrissjóðirnir sem gegna mikilvægu hlutverki hér að því er varðar lífeyrisgreiðslur og almenna samtryggingu að því er varðar ýmsa félagslega þætti, séu bærilega sáttir við þá breytingu sem hér er lögð til.

Síðan vil ég spyrja hæstv. ráðherra í lokin. Mér finnst ekki í umsögn Fjárlagaskrifstofunnar neitt vera getið um hvað þær breytingar sem hér eru lagðar til dragi úr skatttekjum ríkissjóðs, t.d. varðandi 2. gr. frv. og áhrifin sem sú breyting sem hér er lögð til hefur á ríkissjóð að því er varðar skattalega meðferð lífeyrisgreiðslna og hvernig verið er að auka möguleika fólks á viðbótarlífeyrissparnaði.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta frv. en vona að það fái góða afgreiðslu í efh.- og viðskn.