Staðfest samvist

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 22:04:11 (6126)

2000-04-06 22:04:11# 125. lþ. 94.18 fundur 558. mál: #A staðfest samvist# (búsetuskilyrði o.fl.) frv. 52/2000, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[22:04]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst gæta ákveðinnar tilhneigingar til útúrsnúninga. Eins og ég sagði áðan hefur verið látið á það reyna hvort vilji væri fyrir því að þingið mótaði þessar reglur. Sá vilji hefur ekki reynst vera til staðar. Ég hafði skilið málið þannig þegar þetta samkomulag varð í allshn. að hér kæmu inn ákveðnar tillögur. Ég er ekki á móti því að þingið móti reglur, það er svo langt í frá. Ég óskaði hins vegar eftir því að útskýrt væri hvað kæmi fram í 2. gr., hvort hún opnaði á þessa möguleika og einnig hitt að mér fannst sérkennilegt að ráðherrann skyldi kjósa að fara þessa leið. Mér fannst það sérkennilegt vegna þess að ef um stjfrv. er að ræða hefur það stundum þótt haldbetra, a.m.k. sýnir reynslan það í þessum málum að þingmannafrv. dugði ekki, en stjfrv. hafa hingað til dugað vegna þess að þau eru þó búin að fá samþykki í stjórnarflokkunum. Ég vænti þess að það samkomulag sem menn tala um að gert hafi verið muni þá halda og þó að það sé ekki hluti af stjfrv. nægi það þó til ef nefndin flytur og er sammála um það.