Landsvirkjun

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 10:46:55 (6145)

2000-04-07 10:46:55# 125. lþ. 95.23 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[10:46]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég frábið mér nú svona persónuleg fúkyrði eins og koma hér oft úr ræðustólnum frá hv. þm. Hjálmari Árnasyni. Þetta er honum ekki samboðið og sérstaklega ekki sem formanni nefndarinnar sem hefur forræði á málinu í þessari umræðu.

Ég spyr hv. þm.: Ef honum höfðu borist upplýsingar um að breytingar hefðu orðið á eignarhaldi á því fyrirtæki sem var hér í umræðunni í nefndinni sem Landsvirkjun átti aðild að, hvernig stendur þá á því að hv. þm. kemur þeim upplýsingum ekki til nefndarmanna?

Það er mjög minnisstætt hvernig staðið var að þessu máli. Það var rifið út úr nefndinni áður en umsagnir höfðu borist og áður en búið var að vinna það í nefndinni. Og hvernig stendur þá á því að hv. þm. lætur ekki nefndarmenn vita um að þarna höfðu orðið breytingar á? Þetta eru fullkomlega óeðlileg vinnubrögð og ég fordæmi þau, herra forseti.

Hv. þm. býr yfir mjög alvarlegum upplýsingum sem varða málið en lætur ekki aðra nefndarmenn vita af því. Við það er eitthvað bogið. Hvernig stendur á því að hv. þm. lætur ekki nefndarmenn vita af þessum breytingum?

Það kom mér verulega á óvart þegar þetta kom fram í fréttatíma á Stöð 2 í gærkvöldi. Í fréttinni kemur einnig fram hvað málið er nú skrýtið þar sem forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar er borinn fyrir því að Landsvirkjun fer í einhverja leiki með eignarhaldið og síðan er það allt saman borið til baka í enda fréttarinnar. Þarna er því eitthvað skrýtið á ferðinni.

En við munum auðvitað koma inn á það, bæði ég og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, í máli okkar hér á eftir.