Eignarréttur íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 16:57:33 (6227)

2000-04-07 16:57:33# 125. lþ. 95.25 fundur 524. mál: #A eignarréttur íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins# (gjaldtökuheimild o.fl.) frv. 101/2000, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[16:57]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil benda hv. þm. á það sem kom reyndar fram í framsöguræðu minni fyrir málinu að þetta er sambærilegt ákvæði við það sem er í þjóðlendulögunum og þar fer forsrh. með þetta vald sem hv. þm. nefnir því nafni. Það er því ekki eins og þetta sé í fyrsta skipti sem þetta er gert. Ég kann því miður ekki skil á því hvort hv. þm. studdi það frv. þegar það var samþykkt hér á Alþingi á síðasta kjörtímabili eða ekki, en mér leikur grunur á að hann hafi gert það reyndar, en hann man það væntnalega betur sjálfur.

En það sem um er að ræða er að tekjum vegna útgáfu leyfa verði varið til hafsbotns og landgrunnsmála, svo sem almennra rannsókna, sérstakra olíuleitarverkefna o.fl. samkvæmt nánari ákvörðun iðnrh. Auðvitað getur verið umdeilanlegt hvort rétt sé að gera þetta svona en fordæmið er fyrir hendi. En eitt er víst að á fjárlögum síðustu ára hefur verið mjög lág upphæð til slíkra rannsókna og kannski þess vegna fyrst og fremst erum við ekki komin lengra í rannsóknum en raun ber vitni. Eins og komið hefur fram er verið að vinna frv. til olíuleitarlaga og olíuvinnslu og augljóst að aukið fjármagn þarf til þeirra rannsókna.

Ég tel að þetta sé ekki óeðlileg aðferð sem hér er kveðið á um í frv. til að hafa ákveðið fjármagn úr að spila í þessu skyni, en auðvitað getur hv. nefnd farið betur yfir þetta mál, en svona er þetta í frv. og svona er tillaga mín.