Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 14:31:14 (6328)

2000-04-11 14:31:14# 125. lþ. 97.15 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[14:31]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki nema hv. þm. Hjálmar Árnason hafi misskilið eitthvað af því sem ég sagði. Spurning mín til hans var um það hvort verðmæti sem verða til í skjóli einokunar geri það að verkum að ekki verði mögulegt fyrir aðra sem vilja búa til --- við getum kallað fjarskiptakerfið þjóðvegi --- þjóðveg og selja inn á hann.

Ég nefndi áðan í ræðu minni að ég óttast að það verði eitt af því sem verði haft á því að við getum nýtt okkur upplýsingabyltinguna sem skyldi að við munum ekki hafa nægilega marga þjóðvegi til þess að sinna upplýsingabyltingunni.

Það er kannski sú spurning sem ég beindi til hv. þm., ekki það hvort önnur fjarskiptafyrirtæki vildu komast inn á þetta, sem er ofur eðlilegt, og spara sér ákveðinn kostnað við uppbyggingu á kerfinu, heldur ef við förum að nota verðmæti sem verða til í skjóli einokunar hvort þau séu ekki til þess fallin að útiloka að aðrir komist inn á það að selja inn á þjóðvegi sína.