Atvinnuréttindi útlendinga

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 15:31:35 (6345)

2000-04-11 15:31:35# 125. lþ. 97.17 fundur 261. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (undanþágur) frv. 41/2000, Frsm. ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[15:31]

Frsm. félmn. (Arnbjörg Sveinsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þær umræður orðið hafa um þetta ágæta nál. félmn. Eins og fram kom í framsögu minni var farið mjög nákvæmlega í þetta mál. Margir voru kallaðir til að ræða umfang málsins og við erum þeirrar skoðunar að með þessu séu stigin þau skref að hægt verði að hamla að einhverju leyti þeirri starfsemi sem menn hafa haft miklar áhyggjur af, þ.e. starfsemi nektardansstaðanna.

Ég held að rétt sé að það komi fram einu sinni enn um hvað þessar brtt. fjalla. Þar segir skýrum orðum:

,,Þeir sem koma fram á næturklúbbum falla ekki undir þessa undanþágu.``

Þarna er vísað í undanþáguna sem núna er notuð fyrir nektardansarana til að koma inn í landið. Þetta þýðir að allir þeir sem starfa á stöðum sem flokkast undir næturklúbba þurfa að fá atvinnuleyfi.

Einnig getur síðan ráðherra sett reglur sem skilgreina nánar einstök störf sem falla undir undanþágu 14. gr. Þó að einhverjir ætluðu að reyna að fela slíka starfsemi með því að sækja um á þessari undanþágu þá er það í höndum ráðherra að skilgreina hvaða störf falla þarna undir.

Ég ætla enn og aftur að þakka hv. félmn. fyrir starfið sem gekk mjög vel og var mjög upplýsandi fyrir alla nefndarmenn. Við teljum að hér sé gengið eins langt og hægt er á þessu stigi en okkur er fullljóst að hér er ekki verið að banna eitt eða neitt. Við teljum það reyndar nokkrum erfiðleikum bundið að banna þessa starfsemi. Við þekkjum auðvitað samfélög þar sem t.d. nekt er bönnuð, við getum vísað til Íran. Við treystum okkur ekki til þess að ganga svo langt því að það er ekki hluti af okkar menningu að hafa slík höft á því hvernig fólk kemur fram.

Þetta vildi ég segja hér að lokum, hæstv. forseti. Ég vil að það komi enn og aftur fram að auðvitað er mikill óhugnaður og vandamál sem tengjast mansali og kynlífsþrælkun. Okkur ber að vinna gegn slíku. Þetta frv. er liður í að hægt verði að hafa stjórn á þeim sem koma til landsins og eftirlit með þeim. Hæstv. félmrh. á þakkir skildar fyrir að hafa lagt frv. fram. Félmn. er einhuga um að þau skref sem þarna eru stigin skipti máli.