Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 18:47:27 (6387)

2000-04-11 18:47:27# 125. lþ. 97.22 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[18:47]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. síðasta ræðumanni fyrir undirtektir hans við mitt mál. En ég vildi aðeins koma inn á og leiðrétta misskilning sem kom fram í máli hans vegna þess að sú brtt. sem ég hef lagt fram mundi koma í k-lið 1. gr. frv. á eftir svofelldum texta, með leyfi forseta:

,,k. Íslensk fyrirtæki: Fyrirtæki, óháð rekstrarfyrirkomulagi, sem uppfylla öll eftirfarandi skilyrði:

1. Eru skráð á Íslandi og starfrækja höfuðstöðvar sínar hér á landi.

2. Eru landfræðilega staðsett á Íslandi og lúta íslenskri lögsögu.

3. Fyrirsvarsmenn og lykilstarfsfólk fyrirtækjanna eru búsett á Íslandi.``

Síðan kæmi þá fjórði liðurinn, með leyfi forseta:

,,Eiga eða leigja skip sem sigla undir íslenskum fána, mönnuð íslenskri áhöfn, ef fyrirtækið hefur sjóflutninga með höndum.``

Það er því alveg ljóst að skip sem sigla undir íslenskum fána lúta líka íslenskum kjarasamningum og því þarf ekki að taka það neitt sérstaklega fram varðandi þetta mál þannig að íslenski fáninn mundi alfarið ráða því undir hvaða kjarasamninga íslensk skip mundi falla.