Kosningar til Alþingis

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 19:26:42 (6392)

2000-04-11 19:26:42# 125. lþ. 97.23 fundur 522. mál: #A kosningar til Alþingis# (heildarlög) frv. 24/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[19:26]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Svona hljómar rödd flokksagans. Að þeim breytingum sem verið er að gera á kosningalögum og kjördæmaskipan í landinu finnst mér mjög mikilvægt að hver og einn þingmaður komi sem sjálfstæður einstaklingur. Og þannig á að taka á breytingum á stjórnarskrá landsins líka. Þar eiga flokkarnir ekki að makka sín í milli. Þar eiga engin hrossakaup að eiga sér stað. Þar á samviska hvers og eins að ráða för. En hér heyrðum við rödd flokksagans.

Ég vil leiðrétta hæstv. utanrrh. á tengingu við Alþb. Það er alveg rétt að margir af þeim sem styðja Vinstri hreyfinguna -- grænt framboð eða eru þar innan borðs, koma úr Alþb. (Utanrrh.: Meðal annarra þú.) Nei, það er rangt hjá hæstv. utanrrh. Ég hef aldrei verið skráður félagi í Alþb. Ég var þar sem óháður, enda hét þingflokkurinn á sínum tíma Alþb. og óháðir og sá þingflokkur tók aldrei afstöðu (Gripið fram í.) meðan ég var þar innan borðs með þessum breytingum. Það er rangt. Enda hefði ég aldrei lotið flokksaga í þessu máli, aldrei. Stjórnarskrá Íslands gerir ráð fyrir því að hver og einn þingmaður komi að hverju máli og láti samvisku sína ráða för. Þannig á að ráðast í þessar breytingar. Ég vísa því til föðurhúsanna að tala til okkar á þann veg að ætla að reyna að kæfa niður alla gagnrýni hér um þetta mál í ljósi þess að flokkarnir hafi makkað sín í milli. Ég vísa þessu til föðurhúsanna.