Kosningar til Alþingis

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 20:54:21 (6397)

2000-04-11 20:54:21# 125. lþ. 97.23 fundur 522. mál: #A kosningar til Alþingis# (heildarlög) frv. 24/2000, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[20:54]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Bara til að ljúka umræðunni um Bretland þá lýsti Verkamannaflokkurinn því yfir fyrir kosningar að hann stefndi að því að taka upp hlutfallskerfi í þingkosningum. Hann hefur hins vegar bakkað frá þeirri yfirlýsingu þannig að fyrir liggur að hann muni ekki koma því kerfi á fyrir næstu þingkosningar.

En við skulum hafa staðreyndirnar hreinar í þessu máli. Hv. þm. lýsti því yfir að hann væri andvígur því að hafa misvægi atkvæða. Með það var lagt af stað í þessa vegferð, að það væri mannréttindabrot að vera með misvægi atkvæða. Því var lýst yfir héðan úr þessum ræðustól af ekki ómerkari mönnum en þáv. formanni Alþfl., Jóni Baldvini Hannibalssyni. En hver er niðurstaðan? Hún er sú að það eigi að vera misvægi, enda er misvægi atkvæða meginreglan í vestrænum lýðræðisríkjum.

Þau eru örfá og teljandi á fingrum annarrar handar þau vestrænu lýðræðisríki sem ekkert misvægi hafa. Meginreglan er hins vegar að hafa fulltrúalýðræði þar sem fulltrúarnir eru valdir úr kjördæmum. Það fyrirkomulag hefur óhjákvæmilega í för með sér misvægi. Þegar menn ákveða að búa við fulltrúalýðræði felur það í sér misvægi atkvæða, enda er ekkert að því. Það er meginreglan í vestrænum lýðræðisríkjum. Svo geta menn deilt um hve mikið misvægið eigi eða megi vera. Um það eru skiptar skoðanir. Hitt er meginreglan, sem hv. þm. sagðist vera ósammála, og einnig í þessu máli sem hann þó styður fullkomlega, að það sé misvægi atkvæða.