Kosningar til Alþingis

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 20:56:26 (6398)

2000-04-11 20:56:26# 125. lþ. 97.23 fundur 522. mál: #A kosningar til Alþingis# (heildarlög) frv. 24/2000, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[20:56]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Nú er mér ekki alveg ljóst hvort hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hafi verið í Alþb. árið 1997. Ég held þó að svo hafi verið. Ég held raunar að fleiri hv. þm. hér hafi verið í þessu sama Alþb. á landsfundi sem þá var haldinn. Þar sagði um kjördæmamálið að um leið og stefnt yrði að því að jafna atkvæðisrétt og gera úthlutunarreglu einfaldari þyrfti áfram að tryggja jöfnuð milli flokka. Það er nákvæmlega þetta sem verið er að gera hér. Var hv. þm. ekki á þessum fundi eða fór þetta framhjá honum?

Auðvitað er kjarni málsins sá að við erum hér að taka mjög markvert skref, kannski ekki nógu stórt. Ég lýsti því hér áðan að einlæg skoðun mín væri sú að gera ætti landið að einu kjördæmi. Ég sætti mig hins vegar við einhvern ávinning frekar en engan. Orðaræður á borð við þær sem hv. þm. er hér að reyna að upphefja eru eingöngu til þess gerðar að drepa hér málum á dreif, að halda áfram þæfingi sem menn hafa staðið í árum og áratugum saman með þeirri afleiðingu að ekkert hefur gerst. Ég árétta þess vegna, herra forseti, að ég fagna því einlæglega okkur miði þó í rétta átt. Við sjáum aldrei samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins Íslands jafnmikið misvægi atkvæða og við höfum búið við á síðustu árum og raunar áratugum (ÖJ: Og er ... ) og það finnst mér stórkostlegur ávinningur. Hér grípur frammí hv. þm. Ögmundur Jónasson (Gripið fram í.) sem kemur héðan úr Reykjavík. Hann reynir hér í málflutningi sínum að finna frv. þessu allt til foráttu. Vill hann búa við það áfram að Reykvíkingar, kjósendur hans, hafi eitt atkvæði á sama tíma og Vestfirðingar eða kjósendur á Norðurlandi vestra hafi fjögur? Er það það niðurstaða sem hv. þm. Ögmundur Jónasson vill sjá?

Ég ætla ekki að elta ólar við hv. þm. um hversu óháður hann var í Alþb. eða hvort hann var á þessum landsfundi sem ég nefndi áðan.