Kosningar til Alþingis

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 23:24:08 (6418)

2000-04-11 23:24:08# 125. lþ. 97.23 fundur 522. mál: #A kosningar til Alþingis# (heildarlög) frv. 24/2000, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[23:24]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst gæta örlítils misskilnings þegar menn ræða lýðræði og þann veruleika sem birtist sannarlega í því að þegar breyta skal stjórnarskrá þá skuli líða kosningar á milli. Mér finnst eins og menn nálgist það viðfangsefni þannig að þar með sé verið að gefa væntanlega nýjum þingmönnum sem kjörnir eru í þeim kosningum og hafa ekkert aðkomu að stjórnarskrárbreytingunni fyrir þær, frjálsar hendur eftir þær. Það er hins vegar ekkert aðalatriði málsins. Aðalatriði málsins er að þjóðinni gefist kostur í almennum kosningum á því að kjósa um þetta mál ef hún vill svo við hafa, að henni gefist kostur á því að hegna þeim flokkum sem bera uppi tilteknar tillögur um breytingar á stjórnarskrá sem þjóðinni hugnast ekki. Hver var niðurstaða þeirra mála í þessum kosningum? Ég var afskaplega óánægð\-ur með niðurstöður kosninganna en engu að síður held ég að það sé á engan hátt hægt að lesa það úr niðurstöðum kosninganna að þjóðin hafi hafnað stjórnlagabreytingunni í apríl 1999, það er algjörlega með ólíkindum. Þvert á móti hlaut ég að álykta sem svo, því að sá flokkur sem ég bauð mig fram fyrir var alveg skýr á því hvaða stefnu hann hafði í þessu máli. Svipað var um flesta aðra flokka, ég kann ekki nákvæmlega að segja frá því hvort flokkur hv. þm. hafi haft þetta efst á kosningastefnuskrá sinni eða neðst, ég bara man það ekki, en það er kjarni málsins, ekki það að einstakir þingmenn hafi frelsi í þessu eða hinu, það er líka skrifað í stjórnarskrá og þarf ekki að deila um það.