Starfsgrundvöllur lítilla iðnfyrirtækja á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 12. apríl 2000, kl. 14:51:37 (6493)

2000-04-12 14:51:37# 125. lþ. 99.3 fundur 517. mál: #A starfsgrundvöllur lítilla iðnfyrirtækja á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 125. lþ.

[14:51]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Mér var ekki kunnugt um að hv. þm. ætlaði að fjalla aðeins um eitt fyrirtæki þannig að ég mun svara þessari fyrirspurn á breiðum grundvelli í aðalatriðum. Svarið er sem hér segir:

Um þessar mundir er unnið að því að styrkja starfsemi Háskólans á Akureyri með því að flytja hluta af verkum allmargra vísinda- og rannsóknastofnana til Akureyrar. Hér er um að ræða samstarfsverkefni nokkurra ráðuneyta sem geta lagt til umtalsverða þekkingu frá undirstofnunum sínum til að skapa samstæða rannsóknarheild í nýju umhverfi við Háskólann á Akureyri.

Að baki þessari hugmynd liggur sú skoðun að með samstarfi Rannsóknastofnunar ríkisins annars vegar og kennslu- og rannsóknum háskólans hins vegar megi ná fram mikilvægri gagnvirkni sem nýtist bæði háskólanum, nemendum hans og stofnunum einnig.

Annar mikilvægur ávinningur felst í því að samstarf vísindamanna með mismunandi faglegan bakgrunn skapar möguleika á rannsóknarverkefnum á nýjum sviðum sem annars væri ólíklegt að stofnað yrði til. Þetta samstarfsverkefni er til þess fallið að leiða af sér ný störf og ný fyrirtæki, einkum í þekkingariðnaði. Ef vel tekst til er ekki ólíklegt að ný sprotafyrirtæki hefðu hag af sambýli í þessu umhverfi einnig.

Ástæðan fyrir því að ég geri þetta að sérstöku umfjöllunarefni í upphafi svars við fyrirspurninni er að atvinnuuppbygging á landsbyggðini þarf að verulegu leyti að grundvallast á þekkingu til að takast á við ný verkefni sem í framtíðinni verða stöðugt meira á nýjum fagsviðum. Þekkingaruppbygging á landsbyggðinni mun leiða til þess að þegar boðin eru út verkefni sem vinna þarf fyrir opinbera aðila, verður samkeppnisstaða landsbyggðarinnar betri en ella væri. Ég vil leggja áherslu á mikilvægi þess þar sem bein mismunun með því að útdeila opinberum verkefnum með handafli á einn stað frekar en annan er ekki fær. Þetta grundvallast á hinni almennu reglu um innkaup ríkisins sem við þekkjum öll, þ.e. að útboð skal viðhaft hvort heldur um er að ræða kaup á vörum, þjónustu eða verklegum framkvæmdum. Þetta gildir fyrir öll ráðuneyti, ríkisstofnanir og fyrirtæki í eigu ríkisins og skulu öll vörukaup og aðkeypt þjónusta sem er yfir 3 millj. kr. og framkvæmdir sem eru yfir 5 millj. kr. boðin út.

Fyrir smærri verkefni sem eru innan þessara útboðsmarka hafa ríkisstofnanir í auknum mæli sótt þjónustu út á land í samræmi við það þekkingarstig sem þar er að finna. Sem dæmi um þetta má nefna að mikið af þýðingum á erlend tungumál eru fengin utan af landi og ýmiss konar fjarvinnsla fer vaxandi. Þannig held ég að meginþorri þýðinga í mínu ráðuneyti yfir á dönsku sé á Akranesi og til stendur að prenta fréttabréf ráðuneytisins úti á landi. Þó þetta séu ekki stór verkefni eru þau dæmi um hvernig unnt er að nýta möguleika upplýsingatækninnar til fjarvinnslu atvinnuþróun á landsbyggðinni til hagsbóta. En meira er að vænta því að um þessar mundir eru að berast tillögur stofnana ráðuneytisins um flutning verkefna út á land. Ég hef kallað eftir þessum tillögum í samræmi við 6. tölul. þál. um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1999--2001. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Lögð verði áhersla á að opinberum störfum fjölgi eigi minna hlutfallslega á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Því markmiði verði meðal annars náð með því að leitast við að staðsetja nýja starfsemi hins opinbera utan höfuðborgarsvæðisins. Skilgreind verði eftir föngum þau verkefni einstakra ráðuneyta, stofnana og opinberra fyrirtækja sem unnt er að sinna á landsbyggðinni. Hvert ráðuneyti fyrir sig leggi fram tillögur þar að lútandi sem meðal annars geri ráð fyrir að möguleikar upplýsingatækninnar verði nýttir til hins ýtrasta.``

Enn er of fljótt að fullyrða nokkuð um hvað kemur af nýtanlegum verkefnatillögum frá ráðuneytunum. Ég hef þó fullan hug á að hugmyndir þeirra verði skoðaðar rækilega og á það látið reyna að þau fari út á land. Ekki er um annað að ræða en flutningur verkefna úti á land verði í samræmi við lög og því eru athafnir þessa byggðamálaráðherra sem hér stendur takmarkaðar. Ég hyggst engu að síður beita mér fyrir því að lítil fyrirtæki á landsbyggðinni, hvort sem þau eru iðnfyrirtæki eða ekki, njóti eins mikils jafnræðis og unnt er að veita í þeim atvinnuvegi.

Ég vil segja að lokum í tilefni orða hv. þm. um fyrirtæki á Húsavík sem heitir Prýði, að ég hef verið í sambandi við aðila sem tengjast því fyrirtæki og er að leita leiða til þess að úr rætist því að það er vissulega hárrétt sem kom fram í máli þingmannsins að það yrði mikið áfall fyrir þann stað ef svo fer sem horfir að vegna verkefnaskorts þurfi þar að fækka verulega störfum. Eins tel ég ekki algjörlega útséð um að ekki verði hægt að veita þeim verkefni frá ríkisstofnun þrátt fyrir það sem ég áður hef látið koma fram um útboð þar sem það væri innan þeirra marka sem kveðið er á um í starfsreglum.