Eldsneytisafgreiðsla á Egilsstaðaflugvelli

Miðvikudaginn 12. apríl 2000, kl. 15:41:24 (6512)

2000-04-12 15:41:24# 125. lþ. 99.11 fundur 456. mál: #A eldsneytisafgreiðsla á Egilsstaðaflugvelli# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 125. lþ.

[15:41]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Vegna spurningar hv. þm. og fyrirspyrjanda, Þuríðar Backman, vil ég taka fram að ekki gert ráð fyrir framkvæmdum við olíuafgreiðslubúnað í flugmálaáætlun og ég verð að viðurkenna að mér finnst ekki alveg sjálfgefið að ríkissjóður eigi að greiða þann kostnað. Þarna er um að ræða búnað til að selja mikilvægar rekstrarvörur til flugfélaga og ég teldi langeðlilegast að olíufélögin sæju um kostnaðinn við sölu á flugvélabensíni eins og á öðru bensíni og olíum. Mér finnst því ekki augljóst að sá kostnaður eigi að koma úr ríkissjóði. Ég held að það hljóti að vera nokkur hvati fyrir olíufélögin að sinna viðskiptum og koma upp aðstöðu til að selja olíu og bensín svo ekki þurfi að setja einhverjar sérstakar kröfur um þann búnað sem þarf að nota og það hljóti að vera flugfélögin sem nái samningum og viðskiptum við slík félög.

Hvað varðar mun á eldsneytisverði þá þekki ég það ekki og þori ekki að fullyrða um í hverju sá munur liggur en treysti því að olíufélögin leiti hagkvæmustu leiða til dreifingar á bensíni og olíu. Um það er hins vegar deilt, við þekkjum það. En á það ber að líta að það hljóta að vera olíufélögin sem eiga að reka á eftir því og sjá til þess að ná sem bestum samningum um eins lágt bensínverð og kostur er í hverju tilviki. Ég held því að það verði mjög erfitt fyrir samgrh., hver sem hann er á hverjum tíma, að hafa sérstaka milligöngu um verðlagningu á slíkum rekstrarvörum.