Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 12:12:34 (6528)

2000-04-13 12:12:34# 125. lþ. 100.1 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 125. lþ.

[12:12]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svörin. Ég vil þá fyrir mitt leyti úr því að svo er að Japanar hafa ákveðið að opna hér sendiráð og strax frá og með 1. janúar nk. fagna ég því og geri ekki athugasemdir við að áform okkar um að opna sendiráð í Japan gangi áfram úr því að svo er. Verði það svo að kostnaður verði þó ekki nema tvöfaldur, þó nokkuð sé, þá verður víst að hafa það. Það mun rétt vera að miðað við það verðlag sem menn eiga gjarnan að venjast í höfuðborg Japans þá sé frekar hagstætt að koma sér þar fyrir um þessar mundir.

Varðandi fulltrúa fyrir utanríkisþjónustu okkar annars staðar, eins og t.d. er að semjast um í Mósambík, þá held ég að það sé alveg tilvalið að sæta lagi ef svo ber undir að við getum með hagkvæmum hætti haft fulltrúa okkar, sem er að sjálfsögðu okkar og ekki undir neina aðra seldur þó að hann sé til húsa í tengslum við sendiráð annarra ríkja, t.d. í löndum eins og Afríku eða þess vegna Suður-Ameríku, þar sem ég held að við þurfum að fara að undirbúa að koma okkur betur fyrir. Í Afríku er það kannski einkum og sér í lagi vegna þess að það er augljóst mál að sú álfa verður á komandi áratugum meginvettvangur þróunarsamvinnu og uppbyggingarstarfs ef ekki á að fara skelfilega. Í Suður-Ameríku vegnar mönnum betur og þar gætu verið vaxandi markaðir upp á framtíð litið fyrir ýmsar okkar útflutningsvörur og fleiri hagsmuni sem gera það að verkum að ég held að við eigum að fara að undirbúa stöðu okkar þar, og það sama mætti reyndar segja um Eyjaálfu, þannig að hnötturinn sé sæmilega dekkaður.