Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 13:33:16 (6539)

2000-04-13 13:33:16# 125. lþ. 100.8 fundur 484. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skattleysismörk) frv. 9/2000, Frsm. SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 125. lþ.

[13:33]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Í frumvarpi þessu er lagt til að hækkun persónuafsláttar fylgi umsömdum almennum launahækkunum á vinnumarkaði á tímabilinu 2000--2003 í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þess efnis, dags. 10. mars 2000. Er gert ráð fyrir að hækkun persónuafsláttar og skattleysismarka sem lögð er til komi fram í áföngum frá og með 1. apríl á þessu ári til ársins 2003.

Þar sem einungis hluti vinnumarkaðarins hefur nú gert kjarasamninga til lengri tíma og endurskoða á þá 1. febrúar ár hvert með hliðsjón af launaþróun og þeim kjarasamningum sem á eftir koma er ljóst að almennar umsamdar launahækkanir geta orðið aðrar en liggja til grundvallar því sem kveðið er á um í frumvarpinu. Verði þróun almennra launahækkana frábrugðin þessum forsendum er ljóst að þróun persónuafsláttar hlýtur að koma til umfjöllunar Alþingis á ný.

Við meðferð málsins í nefndinni kom fram það sjónarmið fulltrúa Öryrkjabandalags Íslands að persónuafsláttur ætti að fylgja launavísitölu.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Efh.- og viðskn. stendur einróma að álitinu en Kristinn H. Gunnarsson og Gunnar Birgisson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Herra forseti. Frá því að efh.- og viðskn. afgreiddi frv. hafa náðst samningar milli Samtaka atvinnulífsins og Verkamannasambands Íslands. Fjmrh. hefur lagt fram brtt. sem verður til umræðu á eftir og ég vænti þess að sú tillaga fái góðar undirtektir.