Bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna

Miðvikudaginn 26. apríl 2000, kl. 11:38:17 (6634)

2000-04-26 11:38:17# 125. lþ. 102.14 fundur 241. mál: #A bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna# frv. 27/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 125. lþ.

[11:38]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég leyfi mér eingöngu að benda á þær klyfjar og þá pinkla sem verið er að leggja á atvinnulífið. Ég er ekkert að segja að ég sé á móti þessu frv. Það hef ég ekki sagt. Ég tel meira að segja mjög nauðsynlegt að koma þessu á.

Það sem hv. þm. sagði um lítinn launatengdan kostnað íslenskra fyrirtækja og gott skattalegt umhverfi er einmitt það sem er aðall íslensks atvinnulífs. Það er aðall íslensks atvinnulífs. Þess vegna er atvinnuleysi hér á landi það allægsta sem þekkist. Það er mjög jákvætt og að því hefur núv. ríkisstjórn verið að vinna hörðum höndum, þ.e. laga umhverfi fyrirtækja, minnka álögur á þau og reyna að gera kerfið skilvirkt. Kannski brennur mest á, og að því ættu allir að vinna, að gera kerfið sem við erum að byggja upp, félagslega kerfið tengt atvinnulífinu, skilvirkt þannig að það nýtist þeim sem þurfa en ekki sé verið að veita kannski óþarfa hlunnindi.