Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 15:19:33 (6700)

2000-04-27 15:19:33# 125. lþ. 103.9 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[15:19]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Varðandi þau ummæli sem hv. þm. Jóhann Ársælsson hafði um það að þessi stefnumótun væri ekki mjög skýr finnst mér a.m.k. að við höfum lagt fram ákveðinn grunn og að í greinargerð Frjálslynda flokksins sé mjög skilmerkilega settur fram vegvísir að því hvernig menn gætu unnið sig út úr núverandi kvótakerfi. Þar lýsum við því að á fimm árum skuli aflaheimildirnar koma til baka og ganga til þeirra sem nálgast þær með uppboði. Um það erum við þá sammála vinstri grænir og Frjálslyndi flokkurinn, að skipta flotanum upp í útgerðarflokka og þar tel ég að Samfylkingin sé okkur í raun nokkuð sammála. Menn getur auðvitað greint á um hvort miða eigi við tiltekið ákvæði í lögum nr. 97/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, og að flota þeim sem þar er undir eða yfir 29 metrum eða 42 metrum ætlum við að stýra eftir ákveðnum reglum. En ég held að grunnurinn í þessari stefnumótun sé þokkalega skýr að þessu leyti.

Og að tryggja það að svæðaskipting veiðiréttinda og hlutverk smábáta og strandveiðiflotans sé tryggð. Ég held meira að segja að ég hafi séð þetta í frv. Samfylkingarinnar þannig að ég held að menn sé sammála um margt og fleira en þeir eru ósammála um.