Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 15:23:15 (6702)

2000-04-27 15:23:15# 125. lþ. 103.9 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[15:23]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Ég deili áhyggjum mínum með hv. 4. þm. Vestf. af hinni dreifðu byggð í landinu eftir að hafa hlustað á alla þingmenn sem hafa setið á þingi um langt tímabil tala svo að þeir vilji treysta byggðina. Því var dálítið merkilegt að á 122. löggjafarþingi samþykktu þingmenn með jáyrði sínu eða hjásetu framsalsheimildir smábátanna. Ég stóð á móti þessari breytingu vegna þess að mér fannst rök þau sem þingmenn alls staðar af landinu höfðu talað um að væri eðlilegt að smábátar væru undir öðru kerfi en hinu eiginlega kvótakerfi vera rök vegna hinna dreifðu byggða. Síðan samþykkja menn að það sé í lagi að framsal sé ástundað af hálfu þessara smábáta.

Það var ekki svo að þingmenn einir stæðu að því vegna þess að smábátaeigendur, sem höfðu líka haldið þeim rökum fram að þeir ættu að vera utan hins eiginlega kvótakerfis vegna þess að þeir þyrftu að standa fyrir uppbyggingu og jafnvel atvinnu í mörgum dreifðum byggðum, létu aldeilis í sér heyra um að þingmaðurinn sem hér stendur skyldi hafa haft aðra skoðun á því og greitt atkvæði gegn framsalsheimildunum. Þegar kvótakerfið er grannt skoðað, hvernig menn hafa staðið að því og hvað menn hafa sagt og talað þá er náttúrlega jafnmikið rugl þeim megin eins og það kannski er í lögunum sjálfum.