Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 18:44:58 (6744)

2000-04-27 18:44:58# 125. lþ. 103.9 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, Frsm. minni hluta JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[18:44]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki stundað það að gera lítið úr tillögum annarra í sjávarútvegsmálum. Ég ætla að láta það duga sem fullyrðingu.

Hv. þm. sagði að ég hefði verið óheppinn að tala um að Samfylkingin væri ungur flokkur og var í rauninni að snúa út úr því sem ég sagði. Ég sagði að Samfylkingin væri hér á fyrsta vetri en 17 manna þingflokkur hefði samt náð saman um þær tillögur sem liggja hér fyrir. Ég býst ekki við að það séu margir þingflokkar sem hafa náð þeim árangri. Sú tillaga er í heilu lagi og heildarniðurstaða sem þingflokkurinn komst að. Það getur vel verið að einhver göt séu á henni og það kemur bara í ljós hvort þeir sem eru ekki hrifnir af henni finna þau.

[18:45]

Hv. þm. fór síðan að ræða um einstök atriði og er auðvitað ekki langur tími til að svara fyrir þau hér núna. Leiga innan ársins fannst honum vera af hinu vonda. Vissulega er hægt að fara aðrar leiðir þar en það varð niðurstaðan að hafa hana eins og hún er í hinu kerfinu á meðan þessi aðlögunartími gengur yfir og ég benti á það fyrr í dag en hv. þm. minnti samt á tillögur sínar um að sala á varanlegum veiðiheimildum komi til greina. En það mál sem við erum að taka á í tillögu okkar er einmitt aðalátakamálið í þessu, þ.e. að uppræta eignarhaldið á veiðiheimildunum.

Hv. þm. talar um að skilgreina þennan afnotarétt og banna slíka leigu, það megi sem sagt ekki fénýta þetta með leigu, en hann vill að hægt sé að selja þetta.

Síðan kom að öðru sem ég vil taka undir, þar er örugglega flötur til að ná saman um, það er úreldingarflöturinn á veiðiréttindum. Ég tel að það hafi alltaf verið góð hugmynd að úrelda veiðiréttinn og færa veiðiréttinn þannig til. Ég tek undir með hv. þm. hvað þetta varðar, að þar er einmitt flötur til sátta í málinu og það er einmitt sú aðferð sem við bendum á.