Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 20:48:32 (6776)

2000-04-27 20:48:32# 125. lþ. 103.45 fundur 260. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða) frv. 56/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[20:48]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sagði að verkalýðshreyfingin hefði varið lífeyrissjóðina. Ég spyr: Hvar og hvernig og gegn hverjum?

Annað. Hv. þm. segir að verkalýðsfélögin séu sá aðili sem beri ábyrgð á sjóðunum. Þá vil ég setja upp eftirfarandi stöðu:

Í stjórn verkalýðsfélags eru einhverjir, segjum, fimm, sex eða sjö menn, ég veit ekki hversu margir. Þeir tilnefna í stjórn lífeyrissjóðs þrjá af félögum sínum. Nú klikkar stjórnun lífeyrissjóðsins af einhverjum ástæðum, þessir þrír félagar bara stóðu sig ekki. Hvernig mun hópurinn taka á því vandamáli næst þegar á að tilnefna í stjórn sjóðsins? Hverjum kemur það í koll að þessir aðilar brugðust? Ég er ekki að segja að þetta gerist, en ef það skyldi gerast, hverjum kemur það í koll? Sjóðfélögunum. En þeir komu bara ekkert að þessu máli.

Þess vegna spyr ég hv. þm. hvernig verkalýðshreyfingin, þessi stjórn verkalýðsfélagsins, veitir agavald á þá þrjá fulltrúa í sínum hópi sem hún sjálf tilnefndi.