Þjónustukaup

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 21:01:17 (6783)

2000-04-27 21:01:17# 125. lþ. 103.10 fundur 111. mál: #A þjónustukaup# frv. 42/2000, MF
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[21:01]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Það má í raun segja að í kvöld sé á ferðinni 2. umræða um þrjú mál sem varða kaup og sölu á vöru og þjónustu, þ.e. frv. til laga um þjónustukaup, húsgöngu og fjarsölu og lausafjárkaup sem þegar hefur verið rætt.

Frv. um þjónustukaupin var lagt fram, eins og hér kom fram, á 122. og 123. löggjafarþingi en ekki náðist að ljúka málinu og var það lagt fram aftur óbreytt, en segja má að það hafi hlotið heilmikla umfjöllun, bæði í þinginu og í efh.- og viðskn. En eins og fram kemur í athugasemdum við frv. eins og það er lagt fram er orðin mikil þörf á lagasetningu sem tekur til seldrar þjónustu. Slík löggjöf hefur þegar verið sett annars staðar á Norðurlöndum, þó ekki í Danmörku að mig minnir. Ýmsar þjónustugreinar hafa vaxið gríðarlega á síðustu árum sem sést m.a. á því að velta þeirra hefur aukist um allt að 20% á síðustu 8--10 árum. Og líklega skiptir veltan í tölvuþjónustunni þar hlutfallslega mestu um, en aðrar greinar þjónustunnar hafa einnig vaxið gífurlega og sífellt bætast við nýjar þjónustugreinar. Þetta þýðir að hluti þjónustu í einkaneyslu almennings hefur einnig aukist verulega á síðustu árum og er löngu tímabært að setja löggjöf hvað varðar vernd þess sem kaupir þjónustuna, en varðar þó einnig öryggi þess sem selur.

Efh.- og viðskn. hefur farið ítarlega yfir málið og fengið fjölda umsagna eins og fram kemur í áliti nefndarinnar sem formaður hennar, hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, fór yfir áðan. Í niðurstöðu okkar tökum við tillit til ýmissa ábendinga sem fram hafa komið og eru brtt. í fullu samræmi við þær.

Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í áliti nefndarinnar stöndum við öll að þessari niðurstöðu og teljum við frv. með þeim breytingum sem við leggjum til vera orðið nokkuð gott og mikið framfaramál og tímabært að Alþingi ljúki loks afgreiðslu málsins sem komið hefur til umræðu á þremur þingum. Þó að allar brtt. sem hér liggja fyrir séu bornar fram af nefndinni allri, og þær eru allar til bóta, vil ég lýsa sérstakri ánægju með ákv. til brb. þar sem gert er ráð fyrir að hæstv. viðskrh. skipi kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa sem ætlað er að starfa frá því lögin taka gildi til ársins 2005. Hér er ekki um að ræða nema að litlu leyti breytingar á eldri lögum. Þetta er nýmæli og frekar yfirgripsmikil löggjöf og er eðlilegt að í það minnsta fyrstu árin geti þeir sem lögin varða leitað til óháðra og sérfróðra aðila hvað varðar túlkun á lögunum.

Miklu máli skiptir, eins og kom fram áðan í þeirri brtt. sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson flutti við annað frv., að lög sem sett eru séu á skýru og vel skipulögðu máli. Því miður er því ekki að heilsa hvað varðar mörg þau frv. sem héðan eru afgreidd. Sum frv. í afgreiðslu efh.- og viðskn. eru engin undantekning hvað þetta varðar, en það vill stundum verða þegar nefndarmenn hafa legið klukkutímum saman yfir efni og orðalagi frv. þá hætta þeir að taka eftir því hvernig málfarið er og hverjir helstu málfarsgallar frv. eru. Jafnvel orðnir sátt við orð eða setningar sem þeir í upphafi skildu alls ekki. Það vill gleymast að þeir sem eiga að vinna eftir lögum eða lögin ná til, í þessu tilviki hver einasti einstaklingur í landinu hefur ekki við höndina sérfræðinga eða höfunda frv. sem skýra orðalag og merkingu hverrar greinar. Lög verða að vera sett fram á skýran og skilmerkilegan hátt á fallegu, auðskiljanlegu máli. Ég tel að okkur hafi ekki tekist nógu vel hvað þetta varðar í frv. því sem hér er til afgreiðslu eða í þeim brtt. sem lagðar eru fram af okkar hálfu í nefndinni.

Í 6. lið brtt. er lagt til að fyrirsögn V. kafla frv. orðist svo: Afhendingardráttur seljanda þjónustu. Þó að þetta sé niðurstaða nefndarinnar get ég ekki sagt að mér finnist þetta vera í lagi og hef þegar gert athugasemdir við þetta orðalag í nefndinni, en að öðru leyti stend ég að öllum þeim brtt. sem í þskj. eru. Mál þetta á eftir að koma til 3. umr. og ef hv. þingmönnum dettur í hug á milli umræðna betri lausn á fyrirsögn V. kafla væri vel til fallið að flytja brtt. við 3. umr.