Barnalög

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 22:12:06 (6795)

2000-04-27 22:12:06# 125. lþ. 103.18 fundur 339. mál: #A barnalög# (ráðgjöf um forsjá og umgengni) frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[22:12]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég stend upp til þess að fagna því frv. sem hér hefur verið kynnt, frv. til laga um breytingu á barnalögum nr. 20/1992, með síðari breytingum, sem allur þingflokkur Samfylkingarinnar hefur lagt fram. Þetta er mjög mikilvægt mál og raunar löngu tímabært að taka á því.

Í dag er tilraunastarfsemi á vegum dómsmrn. í gangi og það er von okkar margra að það sé tilraun sem eigi eftir að sanna sig og vera brautryðjandi fyrir fastari mótun og þjónustu á þessu sviði.

Skilnaður er alltaf erfiður hvort sem það er fyrir hjón eða sambúðarfólk og því miður er oft litið á hann sem þeirra mál og komi ekki öðrum við en það er ekki rétt ef börn eru á heimilinu. Það er skilnaður hjónanna en ekki skilnaður frá barninu. Börnin eiga rétt á umgengni við báða foreldrana og þó að fólk skilji hvort við annað á það ekki að skilja frá börnunum. Hagsmunir barnanna eiga að vera í fyrirrúmi en í því tilfinningalega uppnámi hjá fólki við þessar kringumstæður og oft eftir margra ára sambúðarerfiðleika gleymast börnin oft og hagsmunir þeirra eru ekki hafðir í fyrirrúmi. Því miður verða börnin þar að auki oft bitbein í þessum málum og eru jafnvel notuð sem nokkurs konar kverkatak eða styrking á valdi annars aðilans yfir hinum. Börnin eru því ekki sem hlutlausir aðilar í skilnaðinum heldur kemur það því miður of oft fyrir að þau eru notuð á mjög illskeyttan hátt í erfiðum skilnaðarmálum.

[22:15]

Skilnaður er alltaf erfiður fyrir börnin, jafnvel þó að foreldrar skilji í sátt og samlyndi, hvað þá ef ekki er tekið fullt tillit til barnanna. Oft og tíðum er hægt að draga úr sárindum, þeim djúpu sárum sem verða í sálarlífi barnanna, með því að leiðbeina foreldrunum. Oft þarf ekki nema eitt viðtal við foreldrana til að átta sig á hvernig eigi að bregðast við gagnvart börnunum. Þessi þjónusta er á fáum stöðum talin sjálfsögð, hvorki í heilbrigðisþjónustu okkar né félagsþjónustu. Það er ekki inni í okkar kerfi að aðgengilegt og sjálfsagt sé að leita sér þessarar hjálpar og það sé hluti af því ferli sem tengist skilnaðnum. Þess vegna fagna ég því að þetta frv. skuli koma fram. Í raun ætti ekki að vera hægt að ganga frá skilnaði og forsjármálum öðruvísi en að þessarar hjálpar hafi verið leitað.

Félagsþjónusta sveitarfélaganna hefur á nokkrum stöðum veitt þessa þjónustu og stundum lenda þessi mál á borðum sveitarfélaganna og félagsþjónustunnar þegar allt er komið í óefni. Þegar málin hafa grasserað einhvern tíma, eru jafnvel orðin að barnaverndarmálum eða umhverfi þessara fjölskyldna orðið algjörlega óþolandi, þá er brugðist við en þá hefur yfirleitt mikið gengið á sem hægt hefði verið að komast hjá.

Prestar fá þessi mál til sín oft á því stigi en eru þar ekki sem sömu ráðgefendur og þegar fólk er að búa sig undir að ganga í hjónaband. Margir prestar taka það hlutverk alvarlega að leiðbeina verðandi hjónum fyrir hjónabandið. Að sama skapi er ekki jafnsjálfsagt að fara til prests og leita aðstoðar þegar til skilnaðar kemur og fá samsvarandi leiðbeiningar. Prestar eins og félagsþjónusta sveitarfélaganna lenda oft í að taka við þessum erfiðu málum þegar allt er komið í óefni.

Þjónustan þarf sem sé að vera aðgengileg og má ekki vera dýr. En hvað er dýrt? Það mætti miða við einhverja þjónustu, t.d. að þetta væri líkt því að leita sér aðstoðar á heilsugæslustöð. Þetta er það verðskyn sem ég hef gagnvart þessari þjónustu. Heilsugæslan hefur jú skyldur varðandi forvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir og þess vegna lít ég á þetta sem hluta af slíkri vernd. Greiðslur fyrir þetta gætu verið á því bili sem heilsugæslan tekur fyrir sína þjónustu. Það ætti að vera öllum mögulegt hvar sem þeir standa og þrátt erfiðan fjárhag.

Í viðbót þarf að huga að einu. Þjónustan þarf að vera aðgengileg alls staðar á landinu. Þess vegna þarf þetta að falla inn í eitthvert kerfi sem fyrir er, þ.e. huga þarf að málum varðandi starfsmenn. Því miður eru eru ekki margir menntaðir félagsfræðingar eða fólk sem hefur sérþjálfað sig á þessu sviði ekki til í miklum mæli. Það þarf sérstaka þekkingu til að geta leiðbeint fólki við skilnað frá maka en ekki börnum. Við eigum slíkt fólk ekki til í kippum í dag. Samhliða þessu þyrfti að huga að því að hvetja ungt fólk til að afla sér þessarar menntunar. Það mætti gjarnan bæta því við að þá þyrfti líka að greiða þau laun að fólk fengist til að sinna þessum störfum.