Aðlögunarstuðningur við lífrænan landbúnað

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 22:44:25 (6800)

2000-04-27 22:44:25# 125. lþ. 103.23 fundur 417. mál: #A aðlögunarstuðningur við lífrænan landbúnað# þál., Flm. ÞBack (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[22:44]

Flm. (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um aðlögunarstuðning við lífrænan landbúnað. Flm. auk mín eru hv. þm. Jón Bjarnason og Kolbrún Halldórsdóttir.

Þáltill. er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að beita sér fyrir aðgerðum til að veita bændum sérstakan aðlögunarstuðning við lífrænan landbúnað sambærilegan þeim sem veittur er annars staðar á Norðurlöndum.``

[22:45]

Í grg. kemur fram að í þál. um aðlögun að lífrænum landbúnaði, sem samþykkt var á Alþingi 4. júní 1998, skoraði Alþingi á ríkisstjórnina að undirbúa viðeigandi breytingar á landbúnaðarlöggjöfinni til að unnt yrði að veita bændum stuðning við aðlögun búskapar að lífrænum búskaparháttum. Í 6. gr. búnaðarlaga, nr. 70/1998, sem voru einnig samþykkt á Alþingi 4. júní 1998, er því markmiði m.a. lýst að stuðla beri að framþróun lífrænna búskaparhátta. Landbrh. og fjmrh., fyrir hönd ríkissjóðs, og Bændasamtök Íslands gerðu samning 5. mars 1999 um verkefni samkvæmt búnaðarlögum og framlög ríkisins til þeirra. Í samningnum er með tilvísun í 6. gr. búnaðarlaga Bændasamtökum Íslands heimilað að veita stuðning til lífrænnar ræktunar á árunum 1999--2003, nánar tiltekið til endurræktunar lands. Stuðningur mætti vera að hámarki 25.000 kr. á ha lands og 250 kr. á fermetra í gróðurhúsi. Um eingreiðslur er að ræða. Þá veitir Áform, átaksverkefni, sem unnið er samkvæmt lögum nr. 27/1995, sauðfjárbændum stuðning til lífrænnar dilkakjötsframleiðslu, þ.e. 25.000 kr. til greiðslu kostnaðar við eftirlit og vottun á fyrsta ári aðlögunar, og það er eingreiðsla. Auk þess eru greiddar 25 kr. á kg dilkakjöts sem flutt er út samkvæmt staðfestingu vottunarstofu. Þessi stuðningur var veittur haustin 1998, 1999 og árið 1999 var farið að veita stuðning samkvæmt áðurnefndum búnaðarsamningi frá 5. mars 1999. Þótt þessar greiðslur stuðli að lífrænni ræktun og búskap eru þær ekki sambærilegar þeim stuðningi sem bændur, sem eru að laga búskap sinn að lífrænum landbúnaði, njóta annars staðar á Norðurlöndum. Hér er einkum um eingreiðslur að ræða en þar eru greiddir styrkir um nokkurra ára skeið. Hér á landi er eðlilegt að reikna með fimm til tíu ára aðlögunartíma og væri æskilegt að miða greiðslurnar við það.

Samkvæmt ályktun búnaðarþings frá 1996 starfaði vinnuhópur með fulltrúum frá VOR, þ.e. VOR stendur fyrir Verndun og ræktun, Félagi framleiðenda í lífrænum búskap, og Bændasamtökum Íslands. Vinnuhópurinn skilaði áliti til Bændasamtaka Íslands í nóvember það ár. Þar voru gerðar tillögur um stuðning að aðlögun að lífrænum búskap og tilgreint hvernig það yrði best gert að teknu tilliti til aðstæðna hérlendis. Þetta álit var haft til hliðsjónar við gerð áðurnefnds búnaðarsamnings og er birt í fskj. með þáltill. þessari þótt það sé orðið fjögurra ára gamalt.

Búnaðarþing ályktaði aftur um stuðning við lífrænan búskap árið 1999 og taldi að stefna bæri að því að vaxandi hluti landbúnaðarframleiðslunnar yrði vottaður lífrænn, m.a. með möguleika á útflutningi lífræns dilkakjöts í huga. Svipaðar skoðanir komu fram í skýrslu nefndar um útflutning dilkakjöts sem landbrh. skipaði sumarið 1999. Í skýrslunni, sem er frá 8. nóvember 1999, er greint frá því að náðst hafi allt að 25% hærra skilaverð til bænda fyrir lífrænt vottaða framleiðslu í útflutningi árin 1998 og 1999. Nefndin leggur til að í sjö ár verði veittar allt að 20 millj. kr. í fjárlögum hvers árs til þróunar og aðlögunarverkefna hjá bændum sem hefja lífræna framleiðslu dilkakjöts, einkum til útflutnings.

Hér má geta þess að á síðasta hausti vantaði stórlega lífrænt vottað kjöt til útflutnings á Bretlandsmarkað og þangað hefðum við getað flutt út miklu meira en við höfðum kjötframleiðslu til.

Ljóst er að markaður fyrir lífrænt vottaðar vörur eykst stöðugt. Í fyrstu var einkum um að ræða grænmeti, ávexti og kornmeti en á seinni árum búfjárafurðir á borð við mjólk, egg og kjöt af ýmsum skepnum. Framleiðslukostnaður er nokkuð hærri en í hefðbundinni framleiðslu en á móti vegur hæsta afurðaverðið. Lífrænn landbúnaður er vaxtarbroddur nýsköpunar sem hefur mjög jákvæða ímynd enda slíkir búskaparhættir í góðu samræmi við sjálfbæra þróun og virðingu fyrir jarðvegi, gróðri og búfé. Með meiri hvatningu og stuðningi gæti lífrænn landbúnaður jafnframt stuðlað að eflingu sveitabyggðar í landinu og úrvinnsluiðnaðar. Þessi valkostur getur hentað sumum bændum. Nú vantar meira lífrænt dilkakjöt til útflutnings og innan lands er markaður fyrir grænmeti og fleiri lífrænar vörur. Því verður að teljast eðlilegt að aðlögunarstuðningur við þessa grein landbúnaðar verði a.m.k. jafnmikill og í öðrum norrænum ríkjum.

Herra forseti. Nú höfum við á Alþingi til afgreiðslu frv. til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum. Þetta frv. er hjá hv. landbn. og ber okkur að afgreiða frv. nú fyrir þinglok því frv. er forsenda sauðfjársamningsins sem bændur hafa þegar samþykkt.

Í þessu frv. og þeim samningi, sem skrifað hefur verið undir með fyrirvara um samþykkt þingsins, eru nokkur ný ákvæði og m.a. um gæðastýringu í sauðfjárframleiðslunni. Sú gæðastýring, eins og hún er lögð upp, er mjög heppilegur áfangi eða heppileg leið til þess að þróa sauðfjárræktina inn í lífrænan landbúnað. Gæðastýring ein og sér er ekki lífrænn landbúnaður en er hluti af því ferli sem lífrænn landbúnaður verður að tileinka sér og er því mjög heppileg leið, eins og ég sagði, til að koma sauðfjárræktinni inn í vottað lífrænt ræktað dilkakjöt.

En í samningnum er í raun enginn sérstakur hvati fyrir bændur til þess að taka skrefið til fulls og fara í lífræna ræktun. Hvatinn er til að fara í gæðastýringuna og notfæra sér hana, sem er mjög gott, og eins og ég sagði áðan ákveðið ferli sem er hægt að nota til frekari markmiðssetningar. Ég hef saknað þess að sjá ekki þennan hvata inni í lagabreytingunni.

Þessi till. til þál. um aðlögunarstuðning við lífrænan landbúnað er í sjálfu sér óháð frv. til laga um sauðfjársamninginn. En þar sem ég flyt þetta núna á þessum tímamótum --- það er nokkuð síðan þetta var lagt fram í þinginu --- finnst mér rétt að ítreka að hægt væri að notfæra sauðfjársamninginn núna til að koma með einhvers konar hvata og aðlögunarstuðning inn í samninginn, aðlögunarstuðning við lífræna sauðfjárframleiðslu því að þetta er samningur til sjö ára. Framleiðsluferlið í lífrænum landbúnaði tekur nokkur ár og það vantar kjöt til útflutnings. Verð á lífrænt vottuðum afurðum er hærra. Bændur í lífrænni ræktun þurfa meiri stuðning en bændur í hefðbundinni framleiðslu. Þannig er það allt í kringum okkur og við verðum að laga okkur að því enda er þetta dýrari framleiðsla. Ég óska eftir því um leið og ég vísa tillögunni til hv. landbn. og að hún verði hér tekin til 2. umr. að hv. landbn. skoði eða afgreiði þessa þáltill. samhliða frv. til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum, eða sauðfjárræktarsamninginn, og taki það skref sem mundi verða sauðfjárbændum og okkur öllum til mikilla hagsbóta því það tekur tíma að breyta framleiðsluferli og væri rétt að nota næstu sjö ár. Það er of seint að bíða með aðlögunarstuðninginn þangað til í næsta sauðfjársamningi.