Fæðingar- og foreldraorlof

Föstudaginn 28. apríl 2000, kl. 14:14:26 (6815)

2000-04-28 14:14:26# 125. lþ. 104.22 fundur 623. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof# (heildarlög, breyting ýmissa laga) frv. 95/2000, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 125. lþ.

[14:14]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. um fæðingar- og foreldraorlof á þskj. 1065. Í markmiðsgrein frv. segir:

,,Markmið laga þessara er að tryggja barni samvistir bæði við föður og móður.

Þá er lögum þessum ætlað að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.``

Þegar þessi lög eru komin að fullu til framkvæmda eiga konur og karlar sama rétt til fæðingarorlofs, hvort þau eru á opinberum eða almennum vinnumarkaði eða sjálfstætt starfandi. Hvort foreldri um sig á rétt til þriggja mánaða fæðingarorlofs og er sá réttur sjálfstæður og ekki framseljanlegur. Þá eiga foreldrarnir sameiginlega rétt á þriggja mánaða orlofi til viðbótar og ráða sjálfir hvernig þeim rétti er skipt. Gert er ráð fyrir að lenging á sjálfstæðum rétti föður taki gildi í áföngum þannig að hið nýja kerfi verði að fullu komið til framkvæmda 1. jan. 2003. Sveigjanleiki er á töku fæðingarorlofsins og skal það tekið á fyrstu 18 mánuðum eftir fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur.

[14:15]

Nokkur umræða hefur orðið um að réttur barna einstæðra foreldra væri ekki tryggður til níu mánaða sólarhringssamvista við foreldri. Sé svo er það einungis í undantekningartilfellum. Hjón, sambýlisfólk og foreldrar með sameiginlega forsjá, þó ekki búi saman, hafa sjálfkrafa rétt á samtals níu mánuðum. Einnig á foreldri án forsjár rétt á þriggja mánaðara fæðingarorlofi enda komi til skriflegt samþykki forsjárforeldris. Falli annað foreldri frá áður en það hefur tekið fæðingarorlof öðlast eftirlifandi foreldri rétt til níu mánaða enda séu ekki liðnir 18 mánuðir frá fæðingu eða ættleiðingu.

Það er einungis í tvenns konar tilfellum eða reyndar þrenns konar sem barn á ekki kost á níu mánaða sólarhringssamvistum við foreldri.

Það er í fyrsta lagi ef móðir kýs að feðra ekki barn sitt, í öðru lagi ef forsjárforeldri neitar því foreldri sem er án forsjár um fæðingarorlof og eins kann svo að fara ef annað foreldri er erlendis. Ég tel að einstæðar mæður njóti fyllstu réttinda samkvæmt þessu frv. Hvað fleirburafæðingar áhrærir bætast þrír mánuðir við tímann fyrir hvert barn, þ.e. 12 mánuðir vegna tvíbura, 15 mánuðir vegna þríbura.

Öryggi og heilbrigði á vinnustöðum á meðan á meðgöngu stendur eða eftir fæðingu er tryggt sérstaklega. Enn fremur á þunguð kona rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði í leyfi frá störfum sé ekki unnt að tryggja henni örugg og heilsusamleg vinnuskilyrði.

Í frv. er foreldrum tryggð uppsöfnun og vernd réttinda. Á meðan á fæðingarorlofi stendur greiðir foreldri áfram í lífeyrissjóð og gert er ráð fyrir að Fæðingarorlofssjóður greiði að lágmarki 6% af fæðingarorlofsgreiðslum. Fæðingarorlof reiknast til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem réttindum til orlofstöku, starfsaldurshækkana, veikindaréttar, uppsagnarfrests og réttar til atvinnuleysisbóta. Réttur til að hverfa að sama starfi eða sambærilegu er einnig tryggður.

Þá er rétt að gera grein fyrir því hvernig áformað er að fjármagna fæðingarorlofskerfið. Það er að mestu vinnumarkaðstengt en þeir sem eru í námi eða minna en 25% starfi njóta bóta. Fæðingarorlofssjóður, sem stofnaður verður samkvæmt lögum þessum, mun fá hlutdeild í tryggingagjaldi.

Svo háttar til að mjög hefur dregið úr atvinnuleysinu, sem betur fer, og er það nú innan við 2%. Sá hluti tryggingagjalds sem runnið hefur til Atvinnuleysistryggingasjóðs hefur þó ekki verið lækkaður eins og e.t.v. hefði verið rökrétt. Áformað er að 0,85% af tryggingagjaldsstofni renni í Fæðingarorlofssjóð en greiðslur til atvinnuleysistrygginga lækka að sama skapi enda er Atvinnuleysistryggingasjóður orðinn mjög gildur. Þetta framlag atvinnulífsins til Fæðingarorlofssjóðs er áætlað að nemi árlega 1,2 milljörðum. Tryggingastofnun ríkisins greiðir samkvæmt núgildandi kerfi 1,4 milljarða og ríki og sveitarfélög 600 milljónir vegna starfsmanna sinna. Kostnaðurinn árið 2001 gæti orðið 2 milljarðar en 3 milljarðar árið 2003. Þetta fer að sjálfsögðu eftir því hvort allir foreldrar nýta sér sinn ýtrasta rétt.

Með þessari útfærslu mun kostnaður atvinnulífsins verða óbreyttur frá því sem nú er svo og ríkisins en sparnaður sveitarfélaga yrði 300 milljónir árlega.

Fæðingarorlofssjóður mun greiða 80% af meðaltali heildarlauna eða reiknaðs endurgjalds. Mjög kom til álita að hafa hámark á mánaðargreiðslum en það varð þó ekki að ráði. Það þótti líklegt að hærra launaðir mundu þá ekki taka fæðingarorlof og jafnréttismarkmiðum milli kynja yrði síður náð.

Ein skýringin á kynbundnum launamun, sem viðgengst því miður enn þá, er að konur séu meira bundnar heimili en karlar og frátafir þeirra frá vinnu vegna barneigna meiri en karla. Því þarf að gera aðgengilegt fyrir alla feður að taka fæðingarorlof ef þeir kjósa. Sumir vilja að greiðslur í fæðingarorlofi séu þær sömu og í vinnunni. Það þykir mér ofrausn enda fylgir því ótvírætt einhver kostnaður að sækja vinnu og auk þess ætti að vera einhver sparnaður af því að annað foreldrið sé heima.

Fæðingarstyrkur verður greiddur heimavinnandi og þeim sem er með minna en 25% starfshlutfall. Greiðsla í fæðingarorlofi foreldris í 25--49% starfi skal aldrei vera lægri en 54.021 kr. á mánuði, þ.e. fæðingarstyrkur og hálfir dagpeningar, og lágmark til þeirra sem eru í meira en 50% starfi eða námi 74.867 kr., þ.e. fullir dagpeningar og fæðingarstyrkur.

Þá er í þessu frv. ákvæði um að leiða í lög svokallað foreldraorlof. Það er ólaunað en heimilað er hvoru foreldri að hverfa úr vinnu allt að 13 vikur til að annast barn sitt eða vera samvistum við það á fyrstu átta árum í ævi þess, þ.e. samtals eitt missiri fyrir hvert barn. Þetta er sjálfstæður og óframseljanlegur réttur hvors foreldris. Starfsmanni er heimilt að taka foreldraorlofið í einu lagi eða haga því með öðrum hætti með samkomulagi við vinnuveitendur.

Með frv. þessu er ekki einungis jafnaður réttur kynja heldur er einnig réttur starfsmanna á almennum vinnumarkaði gerður jafn rétti starfsmanna hins opinbera en þeir hafa notið mun betri réttinda. Karlar á vinnumarkaði hagnast verulega á hinu nýja kerfi, þeir fá sjálfstæðan, óframseljanlegan rétt til þriggja mánaða fæðingarorlofs á 80% af meðallaunum og sameiginlegan þriggja mánaða rétt með móður barns. Þetta er mikil réttarbót þar sem rétturinn var áður að hámarki tvær vikur. Þá er réttur heimavinnandi karla og námsmanna til fæðingarstyrks tryggður á sama hátt og kvenna en þess réttar hafa þeir ekki notið áður.

Með aukinni þátttöku kvenna á vinnumarkaði hafa komið fram breytt viðhorf til hlutverka og verkaskiptingar kvenna og karla í samfélaginu. Forsenda þess að karlar og konur geti tekið jafnan þátt í launavinnu sem og öðrum störfum utan heimilis er að þau skipti með sér umönnun barna sinna. Reynslan hefur enn fremur verið sú að margir feður hafa farið á mis við samvistir við börn sín. Í könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands frá árinu 1995 kom fram að velflestir karlkyns þátttakenda töldu að almennur áhugi ríkti meðal karla á að samræma atvinnuþátttöku og uppeldi barna. Af þessum ástæðum hafa komið fram auknar kröfur um að móður og föður verði sköpuð sömu tækifæri til að sinna bæði fjölskyldu og starfi utan heimilis. Einn af þeim þáttum sem stuðla að samspili fjölskyldu- og atvinnulífs er sá að konur og karlar eigi jafnan rétt til fæðingarorlofs og auk þess að eiga kost á sérstöku foreldraorlofi frá vinnu til að vera með börnum sínum. Það var stefnt að því markmiði við gerð þessa frv. og jafnframt verið að tryggja börnum samvistir við báða foreldra.

Frumvarpið hefur að geyma ítarleg ákvæði um skilyrði fyrir töku fæðingar- og foreldraorlofs sem er heimilt að taka í einu lagi eða starfsmaður hagi því eftir nánara samkomulagi við vinnuveitanda. Er því m.a. mögulegt að starfsmaður gegni hlutastarfi meðan á orlofi stendur. Orlofsrétturinn er einstaklingsbundinn og er framsal hans óheimilt að undanskildum þessum þremur mánuðum af fæðingarorlofi sem foreldrar geta skipt með sér. Tilgangur þessarar takmörkunar á framsali er m.a. að stuðla að jafnri stöðu kynjanna innan samfélagsins.

Gildistaka þessara laga leiðir óhjákvæmilega til breytinga á öðrum gildandi lögum. Er m.a. nauðsynlegt að breyta lögunum um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum, en í þeim lögum er kveðið á um greiðslur í fæðingarorlofi í núgildandi kerfi. Þá þarf jafnframt að breyta lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990, með síðari breytingum, þar sem lagt er til í frv. þessu að greiðslur í fæðingarorlofi til foreldra á vinnumarkaði skuli vera fjármagnaðar með hluta af tryggingagjaldi. Hvað varðar lög um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla, nr. 70/1996, með síðari breytingum, gæti þurft að koma til lagabreytingar síðar þar sem þau lög gera ráð fyrir annars konar greiðslufyrirkomulagi í fæðingarorlofi en gert er ráð fyrir samkvæmt frv. 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum, fellur brott þegar samkomulag hefur náðst milli aðila. Að öðrum kosti getur verið þörf á lagabreytingu.

Eins og áður hefur komið fram eiga konur og karlar jafnan rétt til fæðingarorlofs hvort heldur er á almennum eða opinberum vinnumarkaði. Gerð er tillaga um að foreldrar sem eru starfsmenn eða sjálfstætt starfandi eigi sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Ástæðan fyrir þessari lögbundnu skiptingu milli foreldra er m.a. sú að stuðla að jafnri foreldraábyrgð sem og jafnri stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Það er um tímabundna aðgerð að ræða sem er einkum gerð til þess að bæta hag karla þar sem reynslan hefur sýnt að í núgildandi kerfi hafa konur aðallega nýtt réttinn til fæðingarorlofs þrátt fyrir að foreldrar eigi hluta af þeim rétti sameiginlega. Er það mat höfunda frv. að lögbinda þurfi fyrirkomulag í samskiptum foreldra með þessum hætti meðan réttur feðra til fæðingarorlofs festist í sessi. Þegar reynsla er komin á jafna foreldraábyrgð og lögin hafa að fullu öðlast gildi verður tekið til endurskoðunar hvort lögbinda þurfi áfram skiptingu orlofsins milli foreldra. Endurskoðunin verður gerð í ljósi athuganna á því hvernig foreldrar hafi skipt hinum sameiginlega rétti milli sín og töku feðra á sjálfstæðum rétti sínum.

Þetta frv. er, herra forseti, seint fram komið og ég verð að biðjast velvirðingar á því. En þar sem breið samstaða virðist vera um málið vonast ég til að það nái afgreiðslu á þinginu. Ég legg til að frv. verði að lokinni umræðunni sent hv. félmn. til athugunar.