Fæðingar- og foreldraorlof

Föstudaginn 28. apríl 2000, kl. 15:03:12 (6819)

2000-04-28 15:03:12# 125. lþ. 104.22 fundur 623. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof# (heildarlög, breyting ýmissa laga) frv. 95/2000, KLM
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 125. lþ.

[15:03]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Það frv. sem hæstv. félmrh. hefur fylgt úr hlaði er án efa eitt merkilegasta frv. sem flutt hefur verið á því þingi sem nú starfar. Strax í upphafi má lýsa yfir fullum stuðningi við öll meginatriði þess þó ýmislegt sem þar kemur fram sé svo sem vert að skoða og ræða frekar og fá skýringar á. Þar sem ég á sæti í hv. félmn., sem mun fá frv. til skoðunar, mun ég geyma ýmis atriði til umræðu í þeirri nefnd enda held ég að mjög mikilvægt sé fyrir okkur þingmenn nú, vegna þess hve frv. er seint fram komið, að hafa umræðuna sem allra stysta til að koma frv. til vinnslu í félmn. þannig að allir þingmenn, hvar í flokki sem þeir standa, hvort sem þeir eru nú stjórnarsinnar eða stjórnarandstæðingar, sem verður nú væntanlega ekki í þessu máli, fái sem fyrst tíma til að vinna þetta í félmn. og skila því sem fyrst inn til þingsins þannig að frv. megi verða að lögum þó að fáir dagar lifi eftir af áætluðum þingstörfum.

Þetta eru sannarlega tímamót í sögu jafnréttismála, þetta er mjög ánægjulegt mál, þetta er fyrst og fremst jafnréttismál og eins og ég sagði í upphafi eitt merkilegasta mál sem fram hefur komið.

En það er nú svo að þetta frv. dettur ekki af himnum ofan. Þetta hefur verið barátta, kannski flestra stjórnmálaflokka, misjafnlega mikil þó. Þeir flokkar sem standa að Samfylkingu og telja sig vera vinstra megin við miðju íslenskra stjórnmála hafa náttúrlega barist fyrir þessu ákaflega lengi og ég ætla alls ekki að draga úr því að framsóknarmenn og sjálfstæðismenn hafi líka haft þar áhuga á þó menn greini svolítið á um leiðir.

Rétt er að geta þess að Alþýðusamband Íslands hefur barist mjög mikið fyrir þessum málum og verkalýðshreyfingin í heild sinni. Er það sérstaklega ánægjulegt að þessi barátta verkalýðshreyfingarinnar sé að ná fram. Þetta réttindamál foreldra var meðal þess sem m.a. Alþýðusambandinu var falið af öllum aðildarsamtökum sínum að ræða sérstaklega við stjórnvöld í tengslum við nýgerða kjarasamninga. Það var einmitt í framhaldi af kröfu ASÍ í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 10. mars sl. þar sem heitið var endurbótum í þessum málaflokki. Í frv. hæstv. ríkisstjórnar er sennilega komið til móts við flest ef ekki öll atriði sem Alþýðusambandið lagði þar fram. Þetta er mikilvægur áfangi í þá átt að bæta réttindi foreldra á vinnumarkaði og barna þeirra.

Ég held eins og ég sagði áðan að ákaflega mikilvægt sé að þetta frv. fái hraðmeðferð í gegnum nefnd og þing en ég vona jafnframt að það verði þá ekki til þess að einhverjir miklir annmarkar verði á því sem komi þar fram.

Ég hefði viljað fjalla sérstaklega um nokkur atriði og heyra skýringar hæstv. félmrh. hér á eftir og þá sérstaklega um launatengslin. Í frv. kemur fram að foreldrar á almenna vinnumarkaðnum muni fá 80% af launum sínum síðustu 12 mánuði, en þeir sem eru svo heppnir að starfa hjá ríki eða bæ munu fá 100%. Mig langar að heyra frekari útskýringar hæstv. félmrh. hér á eftir á þessum 20% mun sem þarna verður.

Ég hef líka heyrt að menn ætli sér að nota sjúkrasjóði til þess að fjármagna eitthvað mismuninn. Mig langar að spyrja hvort það hafi verið rætt við verkalýðshreyfinguna og hvort hún sé tilbúin í þetta. Eða hvort, ef ég er ekki að misskilja þetta eitthvað, að þetta eigi að vera eins og þarna er sett fram vegna þess að hæstv. félmrh. hefur sagt að enginn eigi að tapa neinu, enginn eigi að tapa þeim rétti sem hann hefur nú eða greiðslum frá núverandi kerfi? Með öðrum orðum, við sjáum ekki hér sem betur fer, ég tek það skýrt fram, að það eigi ekki að skerða réttindi opinberra starfsmanna eða bæjarstarfamanna um að fá 100%. En aðilar almenna markaðarins virðast eiga að fara í einhverja skerðingarprósentu og þar er talað um 80%. Hvernig er þetta hugsað? Er það virkilega svo að á hv. Alþingi árið 2000 ætli menn áfram að vera með einhvern mismun milli þessara aðila vinnumarkaðarins? Ég vil ekki trúa því og ætla svo sem ekki að orðlengja það meira hér og nú, en óska eftir að heyra frekari skýringar frá hæstv. félmrh. í þessum efnum. Þetta er að mínu mati ákaflega mikilvægt atriði og er kannski ljótasti blettur á þessu annars ágæta frv. ef satt er.

Fyrir utan það sem hefur komið fram um einstæða foreldra virðist það vera að einstæðir foreldrar hljóta engan ávinning af því frv. sem hér er lagt fram. Réttindi þeirra munu ekki aukast. Ég bendi aðeins á það að jafnréttisnefnd Reykjavíkur hefur m.a. fjallað um þetta og benti á þetta atriði ásamt ýmsum aðilum vinnumarkaðarins. Þetta vil ég jafnframt spyrja hæstv. félmrh. út í hvernig og fá nánari skýringar á því hvernig þetta væri hugsað. Er það svo að einstæðir foreldrar muni ekki njóta þeirra ávaxta sem hér er verið að bera fram, eins og fram hefur komið, er m.a. skert vegna góðæris í landinu og lítils atvinnuleysis, eins og það er kallað, að peningar flæða út úr Atvinnuleysistryggingasjóði? Talið er óhætt að taka 0,85% og færa í þann ágæta sjóð sem á að stofna, sem ég tek heils hugar undir að er rétt að gera eins og þarna er lagt fram, en það má spyrja hvað gerist ef atvinnuleysi eykst í landinu, hvernig verður Atvinnuleysistryggingasjóður þá í stakk búinn þegar verður búið að skerða tekjur hans til að taka á því?

Ég kemst heldur ekki hjá því að nefna það að þegar menn tala um minnkað atvinnuleysi í landinu er atvinnuleysi í landinu að mínu mati mælt með tveimur skrám; þ.e. annars vegar atvinnuleysisskrá og hins vegar íbúaskrá. Eins og ég hef margoft reynt að koma á framfæri er atvinnuleysið sannarlega að minnka en íbúaþróun í landinu er mjög slæm, fólk er að flytja frá landsbyggð til höfuðborgarsvæðisins og flýja atvinnuleysi sem þar er að skapast m.a. vegna aðgerða stjórnvalda, sem ég ætla ekki að orðlengja frekar um hér og nú, en vildi aðeins benda á þessi tvö atriði, annars vegar atvinnleysisskráninguna og hins vegar íbúaskrána.

Herra forseti. Það sem er að koma fram er að réttur kvenna til fæðingarorlofs er aukinn. Samt sem áður erum við aðeins að stíga átt í lágmarksréttindi miðað við Evrópusamninga og þetta frv. er e.t.v. og kannski aðallega til komið vegna tilskipunar Evrópusambandsins í þessum málum og er skref í áttina að því atriði.

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan tel ég mikilvægt að þetta merka frv. fái hraða meðferð í gegnum þingið og þess vegna ætla ég ekki að nota miklu lengri tíma við 1. umr. Ég á sæti í hv. félmn. og ég hlakka mikið til að fá að takast á við frv. þar. Ég vil aðeins lýsa yfir stuðningi mínum við því að við þingmenn reynum að gera allt sem hægt er til að þetta fari sem fljótast í gegn og verði að lögum áður en við förum heim í vor sem er áætlað 11. maí. Ég vona jafnframt að þó þetta sé svona seint fram komið komi ekki seinna meir í ljós einhverjir annmarkar á því sem hefði verið hægt að sjá fyrir ef við hefðum haft meiri tíma til að ræða málið.