Fæðingar- og foreldraorlof

Föstudaginn 28. apríl 2000, kl. 15:54:05 (6826)

2000-04-28 15:54:05# 125. lþ. 104.22 fundur 623. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof# (heildarlög, breyting ýmissa laga) frv. 95/2000, PHB
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 125. lþ.

[15:54]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Hér er um tímamótafrumvarp að ræða og það er alveg sérstaklega vel unnið að mörgu leyti.

Ég hef lengi barist fyrir því að tekið yrði upp fæðingar- og foreldraorlof af ýmsum ástæðum. Til þess að hæfileikar hvers einstaklings nýtist þjóðfélaginu til fulls verður að ríkja fullt jafnrétti til starfa þannig að hæfasti einstaklingurinn verði ætíð ráðinn. Svo er ekki í dag. Misrétti á milli fólks birtist í misrétti milli karla og kvenna sem er hrópandi og það verður að laga með öllum tiltækum ráðum.

Búið er að taka út úr lögum allt misrétti sem til er nema fæðingarorlofið. Það er það eina sem stendur eftir í lögum þar sem körlum og konum er mismunað. Það virkar þannig: Nú ætla ég sem forstjóri fyrirtækis eða starfsmannastjóri að ráða mann til starfa og fyrir framan mig sitja kona og karl, 25 ára. Mjög miklar líkur eru á því að konan fari í fæðingarorlof á næstu fimm árum, jafnvel 80%. Vegna skiptikostnaðar, þ.e. kostnaðar við að skipta um starfsmanna sem er svona þrjú til sex mánaðarlaun, ræð ég að sjálfsögðu karlmanninn jafnvel þó hann sé á hærri launum og krefist hærri launa. Þetta kemur að sjálfsögðu niður á jafnrétti karla og kvenna.

Þegar þetta frv. hefur verið samþykkt, sem jafnar þennan mun að þremur árum liðnum, verður ekkert eftir nema fordómar og klíkuskapur. Klíkuskapur þar sem um er að ræða fé án hirðis, opinbert fé, fé sem eigandinn kemur ekki að og engan langar til að græða. Hins vegar fordómar karla og kvenna gagnvart konum og svo alveg sérstaklega fordómar kvenna gagnvart sjálfum sér. Þær treysta sér ekki til að standa í eldlínunni. Þetta þarf að laga en það gerum við væntanlega ekki með lögum.

Herra forseti. Misréttið er dýrt og því er þjóðhagslega hagkvæmt að útrýma misrétti. En þetta eru jafnframt álögur á atvinnulífið. Það kostar fyrir atvinnulífið að fólk fer í fæðingarorlof, það kostar í tryggingagjaldi og ef atvinnuleysið vex aftur, sem gerist vonandi ekki, þá mun þurfa að hækka tryggingagjaldið vegna þessa. Hv. þingmenn þurfa að skoða hvort ekki megi jafnframt létta af atvinnulífinu einhverjum öðrum álögum eða hömlum eins og hefur verið gert undanfarin ár og hefur skilað sér í mjög þróttmiklu atvinnulífi.

Öll samfélög byggja á svokölluðum kynslóðasamningi, þ.e. hinn vinnandi maður sér um kynslóðina fyrir framan sig, þ.e. foreldra sína, og um kynslóðina fyrir aftan sig, þ.e. börnin sín. Þegar hann eldist munu börnin sjá um hann. Þetta er svokallaður kynslóðasamningur og hann er útfærður á ýmsa vegu. Áður fyrr var hann útfærður með því að gamla fólkið fór á bak við stóna. Núna er hann útfærður með ýmsum hætti, með lífeyristryggingakerfum, með elliheimilum og alls konar tryggingum til aldraðra. Við erum bæði með almannatryggingar og lífeyrissjóði til að tryggja hinn aldraða og þá sem detta út af vinnumarkaði vegna örorku.

Við erum með ýmis kerfi til að tryggja framfærslu barnanna. Við erum með ókeypis menntakerfi. Við erum ókeypis heilbrigðiskerfi fyrir börnin. Engu að síður er mjög dýrt að ala upp barn. Það er mjög dýrt. Þeir sem hafa staðið í því þekkja það. Þetta frv. er viðleitni til að jafna mun milli þeirra sem ala upp börn og hinna sem koma sér hjá því.

Reyndar eru Íslendingar eru afskaplega jákvæðir gagnvart barneignum. Ég hef sjaldan hitt þjóð sem er eins jákvæð gagnvart barneignum og Íslendingar. Ég hef rekist á það víða í Evrópu að menn hreinlega reikna út hvað kostar að eiga hvert barn og svo hætta þeir við það. Þeir vilja frekar njóta lífsins, fara í sumarleyfi og vetrarleyfi o.s.frv. Ég hef ekki heyrt að Íslendingar hugsi þannig.

Samt sem áður þarf að jafna stöðu þeirra sem taka að sér að ala upp börn sem munu sjá um okkur í ellinni á einn eða annan hátt, annaðhvort með því að borga til baka skuldir okkar við lífeyrissjóðina eða með því að borga beint til okkar með því að reisa elliheimili o.s.frv. Hér er gerð tilraun til þess.

Herra forseti. Það eru nokkur göt í velferðarkerfi okkar í dag og eitt af þeim er það hvað gerist þegar einstaklingurinn verður sex mánaða, þ.e. þegar núverandi fæðingarorlofi lýkur. Hvað gerist þá? Þá þarf yfirleitt móðirin að fara að vinna aftur. Hvað gerist þá með litla borgarann? Við skulum líta rétt aðeins á heiminn með augun átta mánaða barns.

Það er dregið út úr rúminu á morgnana. Það er sett einhvers staðar í pössun. Mamma hverfur og pabbi hverfur og síðan einhvern tíma um kvöldið kemur barnið aftur heim. Þetta litla barn er sem sagt sent að heiman. Ég tel að það sé allt of ungt til þess og það vanti úrræði upp að tveggja til þriggja ára aldri. Flestir foreldrar hafa orðið varir við það að þá eru börnin tilbúin til að skreppa í heimsókn, að fara að heiman, fyrr ekki. Þangað til vilja þau vera heima.

[16:00]

Frv. leysir þetta jafnvel þó að við séum ekki að tala um svo langan tíma. Foreldraorlofið og fæðingarorlofið eru níu mánuðir plús sex mánuðir. Það er ekki nema 11/4 ár. Þá er litli maðurinn orðinn eins árs og þriggja mánaða. En vegna þess hve snilldarlega frv. er sett fram þá má skipta þessu. Foreldrarnir gætu t.d. tekið það upp að vinna hálfan daginn hvort allan tímann og verið heima með barninu hinn helminginn og þá erum við komin með litla manninn upp í tveggja og hálfs árs. Og þá er hann tilbúinn til að fara í gæslu.

Þannig vonast ég til að atvinnulífið, fyrirtækin og sérstaklega aðilar vinnumarkaðarins, þ.e. verkalýðshreyfingin líka, vinni að því að gera vinnumarkaðinn jafnsveigjanlegan og þetta frv. gerir ráð fyrir að hann þurfi að vera. Þegar það er komið munu foreldrar vinna fyrsta tvö og hálft árið í 50% starfi hvort um sig og þau geta verið heima allan daginn hjá litla manninum.

Það sem gerist er dálítið merkilegt. Foreldrarnir spara sér 30 þús. kr. á mánuði í pössun þennan tíma og sveitarfélögin spara sér annað eins fyrir byggingu og rekstur barnaheimila í tvö og hálft ár eða a.m.k. tvö ár. Það kostar þau um 30 þús. kr. á mánuði á hvert barn. Ég reikna með því að ef þetta frv. hefur þau áhrif sem það gæti haft, þ.e. að fólk færi að vinna hálfan daginn í tvö og hálft ár, muni þörf á barnaheimilum hjá sveitarfélögunum minnka mikið. Það kemur fljótlega í ljós hvað það sparar í rekstri þeirra stofnana. Fyrir foreldrana sparar þetta líka umtalsvert eins og ég gat um áðan því að þeir þurfa ekki að kaupa pössun handa litla manninum sem er hvort sem er mjög óæskileg, a.m.k. frá sjónarhorni hans.

Herra forseti. Nokkuð hefur verið rætt um 80% af tekjum sem greiðslur í fæðingarorlofi og mönnum finnst það ekki nóg. Það er að sjálfsögðu alveg feikinóg. Það er meira en nóg. Ég hugsa meira að segja að menn kæmust af með 75% vegna þess að foreldrarnir spara sér pössun á meðan og vegna þess að þau geta unnið ýmislegt heima sem er til hagræðis. Þau geta eytt meiri tíma í innkaup, sparað á því, og þau eru ekki eins þreytt þegar þau eru að vinna heimilisstörfin. Þetta mun því spara. Ég reikna með því að gjarnan megi hugleiða að lækka þetta jafnvel niður í 75%.

Varðandi samanburð við opinbera starfsmenn er það náttúrlega einn hluti af kjarasamningi þeirra nákvæmlega eins og þau feiknarlega góðu lífeyrisréttindi sem þeir hafa. Þetta er nokkuð sem þeir hafa samið um og vilji menn vera oftryggðir í fæðingarorlofi þá er það þeirra mál. Þeir gætu alveg eins samið um eitthvað annað, fengið hækkun á launum í staðinn.

Herra forseti. Við ræðum svo ekki um neitt kerfi án þess að geta um hugsanlega misnotkun. Hver er misnotkunin í þessu kerfi? Hún er sú að einhver ákveði, t.d. karlmaður með há laun, að hirða 80% af launum, sem eru kannski 300 þús. kr., þ.e. 240 þús. kr. í fæðingarorlof, og fara svo að vinna svart engu að síður og barnið er sett í pössun. Á þessu er hætta og þess vegna vil ég að hv. félmn., sem fær þetta frv. til afgreiðslu og umsagnar, skoði hvort ekki eigi að setja í lögin ákvæði um að foreldrar verði skyldugir til að vera heima yfir barni sínu þann tíma þó engin leið sé að fylgja því eftir. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því. Við ráðumst ekkert inn á heimili og athugum hvort fólkið sé heima. En það er þá a.m.k. að brjóta lögin ef það fer þessa leið og þyrfti að fela það enn frekar. Það má jafnvel setja einhver viðurlög, að það þurfi að endurgreiða og jafnvel með álagi þær bætur sem það hefur þá svikið út því að markmiðið er að menn séu heima. Markmiðið er að jafna þennan mun milli karla og kvenna. Það er aðalmarkmiðið og aukamarkmiðið er að foreldrarnir séu heima hjá börnunum sínum.

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta miklu meira og vil endurtaka að ég fagna þessu frv. og er mjög ánægður með hvað það er vel unnið.