Staðfesting ýmissa ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 16:37:03 (6914)

2000-05-04 16:37:03# 125. lþ. 106.6 fundur 587. mál: #A staðfesting ýmissa ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar# þál. 12/125, Frsm. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[16:37]

Frsm. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er gott að hæstv. ráðherra hefur ekki áhyggjur af málinu en það nægir mér ekki sem svör og ég er algerlega ósammála hæstv. ráðherra um að efni þessarar tilskipunar falli ágætlega að orkumálum okkar. Ég tel það þvert á móti vera augljóst mál að mjög margt sem í þessari tilskipun er á alls ekkert erindi og á ekkert við Ísland. Þetta er sniðið að samkeppni milli rótgróinna einkafyrirtækja sem skipta hundruðum á meginlandi Evrópu. Þetta er sniðið að þörfinni fyrir leikreglur í viðskiptum, viðskipti með raforku milli landa og fleiri þætti í þeim dúr sem eiga alls ekki við og eiga ekkert erindi inn í þessi mál hjá okkur. Við getum að sjálfsögðu gert þær breytingar í raforkumálum okkar sem við viljum, þar með innleitt samkeppni að einhverju leyti ef mönnum sýnist svo. En það er bjargföst sannfæring mín að við værum mun betur stödd til þess að gera þá hluti ef við þyrftum ekki að vera þvinguð af ýmsum ákvæðum þessarar orkutilskipunar sem verða okkur til vandræða. Ég nefni t.d. kröfuna um aðskilnað á framleiðslu, flutningi og dreifingu. Tökum landshlutaorkufyrirtæki sem menn vilja stofna og láta sjá um þessa þætti fyrir sig. Hvers vegna í ósköpunum ættu Íslendingar ekki að geta gert það ef þeim sýnist svo? Það truflar ekki á nokkurn hátt hinn sameiginlega orkumarkað Evrópu. Það eru mistök og það skortir í raun öll rök fyrir því að vera að troða Íslandi inn í þetta og mun ég taka til máls aftur um þetta síðar, herra forseti. Þó að mér þyki miður að hæstv. ráðherra skuli þurfa að hverfa á braut vegna annarra skylduverka ætla ég ekki að gera við það frekari athugasemdir en hefði talið að þetta mál hefði þurft að fá miklu betri umfjöllun, skoðun í iðnn. jafnt sem utanrmn., og vandaðri meðhöndlun.