Staðfesting ýmissa ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 17:16:26 (6924)

2000-05-04 17:16:26# 125. lþ. 106.6 fundur 587. mál: #A staðfesting ýmissa ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar# þál. 12/125, Frsm. meiri hluta TIO
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[17:16]

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég vil víkja að nokkrum atriðum sem komið hafa fram í umræðunni um þessa þáltill. Hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði að hér væri um nýja aðferð að ræða. Það er að vísu fullmikið sagt því að sú aðferð sem hér er farin hefur verið farin áður en ekki í stórum stíl. Hún var t.d. farin um það leyti sem samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið tók gildi. Þá voru nokkur mál tekin inn með þessum hætti. Hitt er rétt hjá þingmanninum að meginreglan hefur verið sú að Íslendingar hafa sett stjórnskipulegan fyrirvara um ákvarðanir sem teknar hafa verið í EES-nefndinni en síðan hefur þeim stjórnskipulegu fyrirvörum verið aflétt með lagasetningu án þess að nokkur sérstök tilkynning væri gerð um það.

Það sem er að breytast við þetta mál eins og nefndarálit utanrmn. ber með sér er að við erum að taka upp þá reglu að fjalla um þessar ákvarðanir allar innan utanrmn. og taka ákvörðun um að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara. Í því er breytingin fólgin.

Þegar hin aðferðin hefur verið farin, að gera við þessi mál stjórnskipulegan fyrirvara, hefur það haft í för með sér afleiðingar fyrir samstarfsaðila okkar innan EES, þ.e. EFTA/EES-ríkin því að ákvarðanirnar hafa ekki tekið gildi fyrir þessi ríki á meðan við höfum gert stjórnskipulegan fyrirvara við þær. Það breytist nú við þessar aðferðir sem við tökum upp eins og hér er gerð grein fyrir.

Það hefur að vísu ekki komið að sök þó að við höfum farið hina leiðina hingað til. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur ekki gert veður út af þessari aðferð. En það er vitað að þolinmæði framkvæmdastjórnarinnar er að verða takmörkuð enda er nokkuð liðið frá því að okkur hefur borið skylda til að leiða í lög ákveðnar gerðir. Þar af leiðandi er nú tekið á þessu í heild eins og lýst er í álitinu. Hins vegar hefur það vissar afleiðingar í för með sér fyrir Íslendinga og hv. þm. Steingrímur Sigfússon hefur réttilega lýst þeim afleiðingum í umræðum hér. Þegar við afléttum stjórnskipulegum fyrirvara verður eftirlitshlutverk ESA-stofnunarinnar virkt og hún getur krafið íslensk stjórnvöld um að leiða þessar ákvarðanir í lög, svo fremi sem dagsetningar í þessum ákvörðunum eru fyrir hendi þannig að lagaskyldan hvíli á okkur. Í vissum tilfellum er tímasetning þessara ákvarðana eitthvað fram í tímann og þá kemur þetta ekki til álita hjá Eftirlitsstofnun ESA. Því er ljóst að þetta hefur í för með sér breytta stöðu mála, svigrúm okkar verður öðruvísi og eftirlitið einnig.

Þetta er meginatriði málsins og mér finnst að við þurfum að gera mikinn greinarmun á þeim vinnubrögðum sem hér er verið að taka upp núna, sem mér heyrist að þeir sem tekið hafa þátt í umræðunni séu ekki að gagnrýna. Þeir fallast í stórum dráttum á að eðlilegra sé að fara með ákvarðanir þessar eins og þjóðréttarsamninga, sem þær eru í eðli sínu, og bregðast við eins og hér er gert.

Að vísu hefur allmikil umræða farið fram um þessi mál á vegum utanrmn. sem hélt um þetta mál sérstakt seminar þar sem einmitt þessi þáttur málsins var ítarlega ræddur. Það er að vísu alveg hárrétt hjá hv. þm. að sú umræða fór ekki fram hér í þingsalnum og voru ekki nema nefndarmenn í utanrmn. sem gátu sótt þann fund ásamt þingmannanefndinni hjá EFTA sem naut góðs af þessari fræðslu. En þetta er að vísu sá hluti þingmanna sem fjallar um þennan þátt málanna fyrir hönd Alþingis. Það má þess vegna ekki rugla saman aðferðafræðinni og vinnubrögðunum annars vegar og efni einstakra ákvarðana og mun ég koma aðeins að þeim málum sem hér hefur sérstaklega verið fjallað um.

Ég vil hins vegar taka fram að þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon segir að hér og nú sé tekin efnisleg afstaða til þessara mála, þá er það alveg hárrétt. Hér er verið að taka efnislega afstöðu til þess að við afléttum stjórnskipulegum fyrirvara. Þar af leiðandi er verið að stíga skref sem ekki verður stigið aftur. Það er hárrétt og fer ekki á milli mála.

Að því er varðar tilskipunina um orkumálin þá hefur verið unnið að því nokkuð lengi að koma á virkum orkumarkaði í Evrópu, annars vegar innan Evrópusambandsins en hins vegar á víðari grundvelli. Þar hafa grunnvinnuplöggin verið orkusáttmáli Evrópu og sá samningur sem gerður var á grundvelli orkusáttmálans sem heitir orkusáttmálasamningur Evrópu. Annars vegar hefur þessi viðleitni innan Evrópusambandsins átt að leiða til þess að samkeppni yrði meiri í orkumálum í Evrópusambandinu. Á hinn bóginn hefur orkusáttmálasamningurinn átt að leiða til þess að Austur-Evrópuríkin sem eiga miklar birgðir af orku en hafa lélega grunnþjónustu og takmarkaða fjármuni til þess að lagfæra orkumál sín, gætu notfært sér þá fjármuni sem til eru í Vestur-Evrópu og sérstaklega innan Evrópusambandsins fyrir orkukerfi sitt, bæði til að færa upp og endurnýja orkuflutningakerfið en einnig til þess að endurbæta orkuvinnsluaðferðirnar og orkunýtingu. Á öllum þessum sviðum eru í Mið- og Austur-Evrópu miklir vankantar á framkvæmd orkumála. Orkuvinnslan, orkuflutningarnir og svo aftur á móti orkunýtingin, t.d. í húshitun, er þannig að þar tapast mikil orka. Gerðir Evrópusambandsins og tilskipanir hafa innleitt raunverulegan samkeppnismarkað í orkunni í Evrópusambandinu. Þetta hefur ekki gengið eins vel í Evrópu í heild á grundvelli orkusáttmálasamningsins, fyrst og fremst vegna þess að efnahagsörðugleikarnir í Mið- og Austur-Evrópu hafa verið svo miklir að þar hefur ekki verið unnt að takast á við grunnþjónustuvandann í orkumálum hjá þessu þjóðum sem er mjög mikill.

Það er sem sagt kominn á virkur orkumarkaður í Evrópusambandinu. Það á t.d. bæði við um raforkumarkaðinn, gasmarkaðinn og olíumarkaðinn. Innan þessa orkukerfis eru heilmikil flutningakerfi. Þá erum við að tala um raforkuflutningakerfi en ekki síður um gasleiðslurnar. Það hefur verið heilmikið átak fyrir Evrópusambandið að koma á virkum samkeppnismarkaði á þessu sviði vegna þess að þarna voru ríkisfyrirtæki fyrir sem einkenndu þennan markað. En þetta hefur tekist og t.d. komist á mjög virkur gasmarkaður í Evrópu og raforkumarkaður líka.

Lykillinn að þessari markaðsvæðingu orkumálanna hefur verið að flutningakerfin standi samkeppnisaðilum opin. Það er minna atriði hverjir eru eigendur flutningakerfanna. Aðalatriði málsins er að virk samkeppni komist á þar eð öllum standi til boða að nýta flutningakerfin. Ef flutningakerfin duga ekki þá eru heimildir og sérstök ákvæði um að flýta skuli fyrir uppbyggingu flutningakerfa. Þetta hefur reynst mjög mikilvægt fyrir þróun Evrópusambandsins. Að vísu hefur þetta líka neikvæð áhrif. Eins og gefur að skilja hefur markaðsvæðingin á sér tvær hliðar. Þetta hefur leitt til þess að orka er mjög ódýr í Evrópu og orkufyrirtækin fjárfesta ekki í umhverfisvænni orku.

Hér hefur verið rætt um hversu mikla þýðingu þessi orkumarkaður hefði fyrir Ísland. Frá mínum bæjardyrum séð kemur þetta til með að hafa, a.m.k. fyrst til að byrja með, frekar litla þýðingu fyrir íslenska markaðinn því að hann er einangraður. Hins vegar er ekki loku fyrir það skotið að hér geti orðið raunhæf samkeppni um framleiðslu og sölu á raforku. En hér hlýtur að gilda það sama og í Evrópu, að til þess að slík samkeppni komist á er afar mikilvægt að menn hafi jafnan aðgang að flutningakerfunum. Yfirleitt er í þessum reglum um samkeppni á orkumarkaði gengið mjög tryggilega frá því að fyrirtækin sem annast framleiðslu og sölu á orku geti ekki einokað flutningakerfin.

Ég get vel fallist á að hér er um mikilvægt mál að ræða. Ég er hins vegar ekki sammála því að þarna sé um hættulegt mál að ræða. Þetta er hluti af því samkeppnislandslagi sem verið er að leiða okkur inn í síðan við gengum í hið Evrópska efnahagssvæði sem hefur í stórum dráttum orðið okkur til góðs.

Hér hafa komið fram spurningar um tvær af þessum ákvörðunum sem í þáltill. eru. Annars vegar það sem fjallað er um í lið 3.12. og hins vegar í lið 3.18. Þarna er um að ræða aðlögun að löggjöf ESB, að reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar annars vegar en hins vegar er fyrst og fremst um að ræða tæknileg atriði í báðum þessum tilfellum. Þarna er tekið tillit til þriggja ríkja sem stóðu að EES-samningnum sem voru EFTA-ríki á þeim tíma en eru nú í ESB. Í samningnum eru ákvæði og listar, sérstaklega þó í viðauka við EES-samninginn, sem eiga við þessi ríki. En þau eru ekki lengur EFTA/EES-megin í þessu samstarfi þannig að þar er um að ræða tæknilega aðlögun. Hið sama á við um lið 3.18.

Að því er varðar Alþjóðaviðskiptastofnunina og þá aðlögun skal ég fúslega viðurkenna að ég er ekki nógu vel að mér um það. Það hefði verið möguleiki á að spyrjast fyrir um það á fundum utanrmn. en var ekki gert. Hins vegar er sjálfsagt, og ef hv. þm. óskar eftir því þá mundi ég ekki standa gegn því, að umræðunni yrði frestað uns upplýsingar um þetta atriði fengjust.