Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 16:41:23 (7027)

2000-05-08 16:41:23# 125. lþ. 108.5 fundur 260. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða) frv. 56/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[16:41]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ef um væri að ræða séreignarsjóð væri eðlilegt að veita þessar upplýsingar. En ég er ekki gleggri en svo að ég vil fá markvissar upplýsingar um hver réttindi mín eru en ekki misvísandi upplýsingar eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal er að gera tillögu um að lífeyrissjóðirnir veiti. Ég tel þetta vera misvísandi og orka tvímælis. Ég vil fá markvissar upplýsingar.

Hins vegar geri ég mér alveg grein fyrir því hvað vakir fyrir hv. þm. Pétri H. Blöndal. Hann er að reyna að innræta fólki hugsunarhátt fjárfestisins þannig að einstaklingarnir vakni upp á morgnana og byrji að hugsa um vísitölur, hvort þær séu uppi eða niðri og hve mikið þær hafi hreyfst yfir nóttina. Þetta er hugsunin sem hann vill innræta sjóðfélögum. Ég geri mér alveg grein fyrir því. En ég tel að með því móti að veita upplýsingar um heildareign eða hlutdeild einstaklingsins í lífeyrissjóðnum sé verið að gefa misvísandi upplýsingar. Ég tel þetta orka mjög tvímælis.