Fæðingar- og foreldraorlof

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 18:44:40 (7060)

2000-05-08 18:44:40# 125. lþ. 108.8 fundur 623. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof# (heildarlög, breyting ýmissa laga) frv. 95/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[18:44]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt. Við þurfum að halda áfram að lækka álögur á atvinnulífið. Við höfum gert það á undanförnum árum. Það hefur verið markviss stefna núverandi ríkisstjórnar og þeirrar síðustu að minnka álögur á atvinnulífið og fækka reglum og öðru sem atvinnulífið líður fyrir.

Eins og ég gat um áðan eru það ekki bara fjárhagslegar álögur sem veikja atvinnulífið heldur og ekki síður alls konar reglur, stundum meira og minna óþarfar. Það þurfum við að skoða enn frekar, hvort við getum létt þeim kostnaði af atvinnulífinu þannig að það geti borið þennan kostnað óbugað.

Það er rétt hjá hv. þm. að menn þurfa alltaf að skoða vel hve mikið við lestum atvinnulífið, hve mikið við lestum klárinn sem dregur velferðarvagninn því án hans væri engin velferð. Það er alveg hárrétt. Ég er alveg sérstaklega ánægður með það hvernig tekist hefur að ná niður atvinnuleysinu. Nú þurfa menn að standa vörð um það að atvinnuleysið fari ekki aftur upp. Ég fellst á það með hv. þm. að stóraukinn kaupmáttur hefur valdið mikilli þenslu og innflutningi. Viðvörunarbjöllurnar hringja og það er vandi sem við þurfum að leysa.