Eignarréttur íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 20:47:15 (7079)

2000-05-08 20:47:15# 125. lþ. 108.30 fundur 524. mál: #A eignarréttur íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins# (gjaldtökuheimild o.fl.) frv. 101/2000, Frsm. HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[20:47]

Frsm. iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt sem fram kom í máli hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar að með frv. er sleginn af allur vafi um að hafsbotninn utan 150 metra netlaga er í eigu ríkisins og það er grundvöllurinn að frv. Það er grunnurinn að því sem síðar kann að verða.

Það er jafnframt rétt hjá hv. þm. að hæstv. iðnrh. hefur lýst því yfir og hefur boðað framlagningu frv. um hugsanlega kolvetnisvinnslu á landgrunninu við Ísland en það er í rauninni af allt öðrum toga. Nú er það ekki eina vinnslan sem hugsanlega kann að fara fram á hafsbotni heldur er kolvetnis- eða olíuvinnsla hugsanlega aðeins einn þáttur af mörgum mögulegum öðrum þáttum sem kunna að verða unnir á hafsbotninum við Ísland en mikilvægt er að leggja þennan grunn áður en það hugsanlega ævintýri hefst að slá af allan vafa um að íslenska ríkið eigi hafsbotninn. Síðan fær hvert mál fyrir sig sérstaka vinnslu en grunnurinn er lagður bæði með eignarhaldinu, með gjaldtökunni og jafnframt því hvernig tekjur ríkisins verði notaðar til áframhaldandi rannsókna. Og ég tek undir það að við erum mjög skammt komin í að rannsaka hafsbotn okkar sem er mikið og stórt svæði og er sannarlega þörf fyrir miklar rannsóknir. En þarna er grunnurinn lagður.