Þjóðlendur

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 21:49:45 (7097)

2000-05-08 21:49:45# 125. lþ. 108.4 fundur 321. mál: #A þjóðlendur# (kostnaður af hagsmunagæslu, málsmeðferð) frv. 65/2000, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[21:49]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég tek alveg undir sjónarmið hv. þm. Jóhanns Ársælssonar um að mikilvægt sé að skilgreining á þjóðlendum og afmörkun þjóðlendna fari fram og verði sem skýrust. Ég tek líka undir þau sjónarmið hans að gætt skuli íhaldssemi í að selja eða ráðstafa burt landi sem er þegar í ríkiseigu eða ríkið eignast og er þýðingarmikið í almannaþágu. Það gildir allt öðru máli um jarðir í ríkiseigu sem eru í ábúð og bændur vilja leysa til sín. En það er afar mikilvægt að land sem er sannanlega best komið sem almenningar verði skilgreint meðhöndlað sem slíkt. Ég tek alveg undir það.

Jafnframt er mjög mikilvægt að jafnréttis og jafnaðar sé gætt í framgöngu málsins gagnvart öllum sem eiga hlut að máli en ekki bara gagnvart sumum. Ég vil vekja athygli á því að það sem verið er að flytja er einmitt árétting á því sem m.a. hæstv. landbrh. hefur tjáð sig um í málinu og undirstrikar mikilvægi þess að sú vinna fari fram í trúnaði, það undirstrikar bara mikilvægi málsins varðandi þjóðlendurnar.