Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 22:07:07 (7104)

2000-05-08 22:07:07# 125. lþ. 108.34 fundur 229. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar umfram aflamark) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[22:07]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Við höfum verið að tala um einangrað mál. Ég ætla ekki að halda því fram að smábátamenn hafi ekki haft áhrif í þinginu, síður en svo. Ég var að tala um mjög afmarkað mál sem varðar tegundatilfærslu og í því máli hafa smábátamenn ekki reynt að hafa áhrif á þingmenn svo ég viti til. Hins vegar hafa þeir sem ráða ferðinni, efst í pýramídanum hjá LÍÚ, ráðið mestu um að þetta mál hefur gengið fyrir sig fram á þennan dag.

Í sjálfu sér er alveg furðulegt að alþingismenn skuli hafa látið þetta viðgangast. Þessi regla er með slíkum eindæmum. Þegar venjulegum mönnum er sagt frá því að hægt sé að búa til eina fisktegund úr annarri þá verða menn svo undrandi að þeir halda bókstaflega að það sé ekki satt. Menn spyrja: Til hvers? Af hverju? Það er von að menn spyrji. Af hverju á að vera hægt að búa til eina fisktegund úr annarri? Það er engin ástæða til þess. Inni í þessu kerfi er ákveðinn sveigjanleiki, menn geta leigt sér veiðiheimildir. Menn geta meira að segja flutt veiðiálag á milli ára. Til hvers er þá verið að búa til eina fisktegund úr annarri til þess að rugla fiskveiðiráðgjöfina og þær ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli fiskifræðilegra rannsókna? Hvers vegna? Á því bera hv. alþm. ábyrgð og engir aðrir. Svona hefur þetta verið til margra ára. Ég held að það sé löngu kominn tími til að breyta þessu og hafa menn loksins mannað sig upp í það.