Þingstörf fram að sumarhléi

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 22:50:04 (7116)

2000-05-08 22:50:04# 125. lþ. 108.93 fundur 493#B þingstörf fram að sumarhléi# (um fundarstjórn), KolH
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[22:50]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Af þessu tilefni held ég að þörf sé á því að hv. þm. heyri nokkur orð frá nýliða á þinginu. Ég segi það satt að þessi vinnubrögð sem hér eru viðhöfð í dag, svo ég bara haldi mig við daginn í dag, eru stórháskaleg. Þau eru ansi dapurleg fyrir nýjan þingmann sem hefur hug á að láta til sín taka í málum eins og fæðingarorlofi, jafnréttislögum og nálgunarbanni. Þetta eru dæmi um mál sem hafa farið hér í gegn í dag sem ég hefði svo gjarnan viljað tala í, hef ýmsar skoðanir á en átti ekki tækifæri til að fjalla um í ræðustól vegna þess að ég er svo störfum hlaðin í nefndarvinnunni minni. Ég er að vinna í nefndarálitum og við erum að vinna í breytingartillögum sem áttu að vera komnar inn fyrir klukkan níu í kvöld.

Þannig er reynsla nýliðans fremur döpur. Ég tek sannarlega undir orð hv. þm. sem hér hafa talað á undan, Rannveigar Guðmundsdóttur og Ögmundar Jónassonar, um að stundum væri skynsamlegra að gefa aðeins eftir, gefa fólki svigrúm og leyfa því að anda. Þannig verða vinnubrögðin skilvirkari. Vinnubrögð af þessu tagi stofna lýðræðinu bara í voða. Það er okkur ekki til framdráttar að vinna á þessum hraða.